Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2024 Matvælaráðuneytið

Skýrslu um verndun hafsins skilað til matvælaráðherra

Stýrihópur sem settur var á laggirnar til að skilgreina áherslur Íslands um vernd hafsvæða í íslenskri lögsögu hefur skilað lokaskýrslu til Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.

Áherslur Íslands taka m.a. hliðsjón af markmiðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um áherslur í starfi stjórnvalda og hvaða svæði geta talist til verndarsvæða í hafi með hliðsjón af núverandi stjórnun verndunar og nýtingar.

Stýrihópurinn telur að í ljósi stöðu þekkingar á vistkerfum hafsins sé talsverð áskorun að ná markmiði um verndun 30% efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030 í skilningi stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Hins vegar sé raunhæft að stíga strax skref byggð á þeirri þekkingu og því stjórnkerfi sem er til staðar og skilgreina hvernig unnið verði að þessu markmiði á næstu árum.

Að beiðni stýrihópsins vann Hafrannsóknastofnun einnig viðauka við skýrsluna sem inniheldur mat á núverandi reglugerðum. Matið er unnið með tilliti til annarrar virkrar svæðisverndar sem niðurstöður um útnefningu slíkra svæða byggja á.

„Verndarsvæði í hafi gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sem er grunnforsenda sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins. Þessi skýrsla er lykilskjal í að varpa ljósi á stöðu Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum í þessu samhengi“ sagði matvælaráðherra. „Við höfum þegar stigið mikilvægt skref með því að ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu mína um að hefja þegar í stað vinnu við mótun heildstæðrar stefnu fyrir hafið sem verði í samræmi við tillögur skýrslunnar“.
Í skýrslunni er m.a. lagt til að á komandi árum verði lögð áhersla á verndun sérstæðra og viðkvæmra vistkerfa í hafi. Kortleggja þurfi svæði með hátt verndargildi og samhliða vinna skipulega að rannsóknum á þeim svæðum þar sem líklegt þykir að slík vistkerfi finnist.

Einnig er lagt til að koma á verndun hafsvæða utan meginveiðisvæða á grundvelli varúðarnálgunar þannig að leyfi til nýtingar grundvallist almennt á að framkvæmdar séu áður rannsóknir innan svæðanna. Jafnframt að uppfæra stefnu í málefnum hafsins og hefja skilgreiningu svæðisbundins skipulags innan efnahagslögsögu.

Að auki eru lagðar fram tillögur um þverfaglega samvinnu innlendra stofnana.

Skýrsluna má nálgast hér.

Viðauka Hafrannsóknastofnunar má nálgast hér. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum