Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vinna sett af stað um undirbúning að stofnun þjóðgarðs í Þórsmörk

Drífa Hjartardóttir. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp til að undirbúa og meta kosti þessi að stofna þjóðgarð í Þórsmörk og nágrenni.

Vinnan er sett af stað að beiðni sveitarfélagsins, en ráðherra átti fund með fulltrúum sveitarfélagsins Rangárþingi eystra í upphafi árs þar sem var farið yfir sýn sveitarfélagsins og helstu hagsmunamál svæðisins. Á fundinum kom fram það sjónarmið heimafólks að meginviðfangsefni svæðisins snúi öll að því að styrkja samkeppnisstöðu svæðisins til búsetu, svo sem áfangastað ferðafólks með stofnun þjóðgarðs á svæðinu og stuðla að fjármögnun á innviðauppbyggingu á svæðinu til að mæta auknum straumi ferðafólks á svæðinu.

Í maí á þessu ári óskaði sveitarstjórnin svo eftir því í bókun á sveitarstjórnarfundi að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hæfi skoðun á fýsileika þess að friðlýsa Þórsmörk og nágrenni sem þjóðgarð á grundvelli laga um náttúruvernd.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Þórsmörk og nágrenni er náttúruperla sem á sér fáa líka á Íslandi og þó víðar væri leitað. Það var sérlega ánægjulegt að verða vitni að áhuga, frumkvæði og drifkrafti heimamanna í málinu. Ég er þess fullviss að vinna starfshópsins mun skila sér í afurð sem nýtist sem afar gott veganesti fyrir næstu skref. Það er mér því sönn ánægja að setja af stað þetta verkefni.“

Starfshópinn skipa:

  • Drífa Hjartardóttir, formaður
  • Anton Kári Halldórsson
  • Rafn Bergsson

Með hópnum mun starfa sérfræðingur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

Starfshópnum er falið við vinnu sína að hafa samráð við forsætisráðuneytið vegna þjóðlendumála, viðkomandi sveitarfélög, Land- og skóg og aðra hagsmunaaðila.

Starfshópurinn á að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 15. nóvember 2024.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum