Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Defend Iceland og Stafrænt Ísland í samstarf um netöryggi

Theódór Ragnar Gíslason og Birna Íris Jónsdóttir. - mynd

Stafrænt Ísland og Defend Iceland hafa skrifað undir samning um samstarf á sviði netöryggis. Tilgangur samningsins er að nýta villuveiðigátt Defend Iceland til að finna öryggisveikleika í kerfum Stafræns Íslands og auka þannig og styrkja varnir gegn netárásum.

Markmið Defend Iceland er að nýta forvirkar öryggisaðgerðir til að skapa öruggara stafrænt samfélag. Aukin þekking á tilvist og eðli öryggisveikleika í kerfum fyrirtækja og stofnana er forsenda þess að ná markmiðinu á tímum þegar netárásum fjölgar hratt.

Í villuveiðigátt Defend Iceland eru aðferðir tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa hermdar til að leita stöðugt og með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum. Þannig er hægt að lagfæra öryggisveikleika áður en tölvuglæpamenn geta nýtt sér þá.

Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri Defend Iceland:

„Það er fagnaðarefni þegar stjórnendur hafa framsýni til að nýta forvirkar öryggisaðgerðir til að auka viðnámsþrótt mikilvægra samfélagslegra innviða gegn netárásum. Samstarfið við Stafrænt Ísland er jafnframt mikilvægt skref á þeirri vegferð að byggja upp öryggisvitund og jákvæða öryggismenningu í opinbera geiranum. Það er okkur því mikið ánægjuefni að bjóða Stafrænt Ísland velkomin í hóp viðskiptavina Defend Iceland og við hlökkum til að vinna með þeim að öruggara stafrænu samfélagi.“

Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:

„Hjá Stafrænu Íslandi leggjum við mikla áherslu á netöryggi og það að tryggja að gögn séu ávallt vel varin. Með samstarfinu við Defend Iceland fáum við tækifæri til finna öryggisveikleika, ef einhverjir eru, og bregðast við með forvirkum hætti. Verkefnið mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur stofnana eða valda álagi á tæknilega innviði.“

Samstarfssamningurinn tók gildi um miðjan ágúst. Þar sem veikleikaleit Defend Iceland fer fram allan sólarhringinn allt árið um kring má búast við fyrstu niðurstöðum í september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum