Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hlutur almenna markaðarins í fjölgun starfa er 71%

Hlutur hins opinbera í fjölgun starfa síðastliðið ár er 29% en ekki 66% eins og haldið er fram í Innherja í dag. Það er í góðu samræmi við hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaði almennt. Svo virðist sem fullyrðing fjölmiðilsins byggist á misskilningi og að flokkur Hagstofunnar „Opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta“ sé einfaldlega túlkaður sem hið opinbera. Hið rétta er að mörg störf í þessum geira eru ekki opinber störf. Hjá Hagstofunni er einnig að finna upplýsingar um fjölgun starfa eftir rekstrarformum þar sem betur má greina þróun í fjölda opinberra starfa. Hér er byggt á þeim gögnum. Fjölgun starfa hjá ríki og sveitarfélögum undanfarið ár er í takt við fjölgun starfandi á almennum vinnumarkaði eða tæplega 2%. Kemur það í kjölfar hátt í þriggja ára tímabils þar sem starfsfólki fjölgaði töluvert hraðar á almennum vinnumarkaði en hjá hinu opinbera. Litið yfir lengra tímabil, t.d. fimm eða tíu ára, er fjölgun starfa hjá hinu opinbera hlutfallslega svipuð eða minni en á almennum vinnumarkaði.

 

Í umræðu um fjölgun opinberra starfa er gjarnan byggt á tölum Hagstofu Íslands. Þó er stundum vísað til tiltekinnar flokkunar sem nær til fleiri aðila en aðeins opinberra vinnuveitenda, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Er það raunin jafnvel þótt Hagstofan birti einnig tölur um fjölda starfandi eftir rekstrarformum þar sem unnt er að skilja betur á milli fjölda starfandi fólks hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Þær tölur sýna að um 29% af heildarfjölgun starfa undanfarið ár er hjá ríki og sveitarfélögum sem er í góðu samræmi við hlutdeild hins opinbera á vinnumarkaði almennt.

 

Í maí sl. greindi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá því að fjölgun stöðugilda í heilbrigðisþjónustu væri helsta ástæða þeirrar eðlilegu fjölgunar starfa sem orðið hefur hjá ríkinu undanfarin ár. Næst mest hefur aukningin verið í löggæslu. Á tímabilinu 2018-2023 fjölgaði stöðugildum um 2.500 og má rekja 65% fjölgunarinnar til heilbrigðisþjónustu. Hlutfallsleg fjölgun í heilbrigðisþjónustu, löggæslu og háskólum hefur verið nokkuð umfram fjölgun íbúa í landinu, fjölgun í opinberri stjórnsýslu hefur verið í takt við íbúafjölgun en starfsfólki framhaldsskóla hefur fjölgað hægar en sem nemur íbúafjölgun.

 

Í fréttatilkynningunni kemur einnig fram að jafnvel þótt störfum í heilbrigðisþjónustu hafi fjölgað mikið undanfarin misseri þá sé enn að merkja mestan vinnuaflsskort í greininni. Árið 2023 voru laus störf, sem hlutfall af fjölda starfandi, hvergi fleiri en í heilbrigðisþjónustu eða 25%. Löggæslan kom þar næst með 16%. Þá var aðsókn sömuleiðis langtum minni í störf í heilbrigðisþjónustu, en að meðaltali bárust þrjár umsóknir um hvert auglýst starf.

 

Annar mælikvarði á opinber umsvif er samneysla, sem auk beins launakostnaðar hins opinbera nær til kaupa þess á vörum og þjónustu. Á árunum 2021-2023 stóð samneysla á hvern íbúa landsins svo til í stað að raunvirði. Er það í takt við markmið stjórnvalda eftir heimsfaraldurinn um hagræðingu og aðhald í opinberum rekstri þar sem vörður er staðinn um grunnþjónustu. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 hægði enn á samneysluvexti samkvæmt tölum Hagstofunnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum