Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2024 Forsætisráðuneytið

Ríkisstjórnin fundaði með sveitarstjórnarfólki á Norðurlandi vestra

Sveitarfélögin Húnabyggð, Húnaþing vestra, Skagafjörður og Skagaströnd auk Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) ræddu við ríkisstjórnina um stöðu og þróun samfélagsins á Norðurlandi vestra á fundi í dag. Samgöngumál, fjárfestingartækifæri á svæðinu og opinber störf á landsbyggðinni voru í brennidepli, en ríkisstjórnin hefur samþykkt að forgangsraða fjármunum til þess að fjölga óstaðbundnum opinberum störfum á landsbyggðinni sem og efla vinnustaðaklasa. Sömuleiðis voru orkumál og orkuöryggi til umræðu en unnið er að undirbúningi nokkurs fjölda virkjunarkosta.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra:

„Norðvesturland er lifandi svæði í mikilli sókn. Sameiningar sveitarfélaga hafa gengið vel og við viljum halda áfram að vinna með þeim í að sækja fram. Mikil tækifæri felast í bættum raforkuflutningi og aukinni ferðaþjónustu á svæðinu, svo fátt eitt sé nefnt.“

Sumarfundur ríkisstjórnarinnar verður haldinn í Skagafirði síðar í dag þar sem efnahagsmál eru megin umræðuefnið. Farið verður yfir þróun efnahagsmála í tíð ríkisstjórnarinnar og rætt um bæði stöðu og horfur í samhengi við stefnu ríkisstjórnar í efnahags- og ríkisfjármálum. Staða kaupmáttar, hagvaxtar, atvinnu og fleiri hagvísa undirstrikar að lífskjör hafa um margt þróast með afar jákvæðum hætti. Á hinn bóginn er ljóst að verðbólga er enn of mikil þrátt fyrir lækkun síðustu mánuði og vaxtastig of hátt. Því er mikilvægt að hagstjórnin stuðli áfram að hjöðnun verðbólgu sem skapar skilyrði til lægra vaxtastigs.

Ríkisstjórnin hefur frá árinu 2018 haldið sumarfund utan Reykjavíkur en áður hafa fundir verið í Snæfellsbæ, við Mývatn, á Hellu, í Grindavík, á Ísafirði og á Egilsstöðum. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum