Hoppa yfir valmynd
3. september 2024 Forsætisráðuneytið

Umboðsmaður barna afhenti forsætisráðherra ársskýrslu embættisins fyrir árið 2023

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, afhenti í gær Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra ársskýrslu embættisins fyrir árið 2023.

Í skýrslunni er farið yfir starfsemi embættisins og helstu verkefni þess árið 2023. Fjallað er um bið barna eftir þjónustu en umboðsmaður barna hefur frá árinu 2022 birt með reglubundnum hætti yfirlit yfir fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá opinberum stofnunum.

Embættið gaf út leiðbeiningar á árinu um það hvernig framkvæma skuli mat á því sem er barni fyrir bestu en embættið hefur lagt ríka áherslu á að innleitt verði slíkt mat þegar ráðist er í aðgerðir sem varða börn með beinum eða óbeinum hætti. 

Þriðja barnaþingið var haldið á árinu og tókst það afar vel. Um 140 börn sóttu barnaþingið og í umræðum þeirra kom fram að þau telji brýnt að stjórnvöld hlusti meira á börn og að réttindi allra barna verði tryggð. Þau ræddu um aðgengi að sálfræðiþjónustu í skólum og að skólakerfið eigi að henta öllum. Þá vildu þau fá ókeypis í strætó og að öll börn fái að stunda íþróttir og tómstundir án þess að hafa áhyggjur af kostnaði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum