Hoppa yfir valmynd
4. september 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Gulur september um geðrækt og forvarnir

Hafinn er gulur september, helgaður samvinnu stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Gulur er litur sjálfsvígsforvarna og táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem er markmið mánaðarins og einkennist af fjölbreyttum viðburðum sem allir fjalla um þetta mikilvæga samfélagsmál á einn eða annan hátt.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flutti ávarp þegar formlegri dagskrá mánaðarins var ýtt úr vör í Ráðhúsi Reykjavíkur og fjallar jafnframt um þessi mál í nýlegri blaðagrein. Hann leggur áherslu á að forvarnir séu viðvarandi verkefni sem þurfi að nálgast samkvæmt bestu þekkingu á hverjum tíma. Starfshópur á hans vegum vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaáætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu og er stefnt að því að uppfærð áætlun verði tilbúin fyrir lok mánaðarins: „Ég bind vonir við að uppfærð aðgerðaáætlun í sjálfsvígsforvörnum muni stuðla að betra geðheilbrigði fólksins í landinu og draga markvisst úr tíðni sjálfsvíga.“ 

Lífsbrú, miðstöð sjálfsvígsforvarna

Til þess að styðja enn frekar við sjálfsvígsforvarnir var á síðasta ári veitt varanleg fjárveiting til stöðugildis verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis auk þess sem Lífsbrú, miðstöð sjálfsvígsforvarna var stofnuð. Með stofnun Lífsbrúar er nú komin vettvangur fyrir sjálfsvígsforvarnir í landinu. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda. Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrúarsjóður sem ætlað er að byggja undir og styðja við sjálfsvígsforvarnir. 

Geðrækt og forvarnir byggjast á samvinnu

Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu, enda snerti það flesta anga þess. Fjölmargir aðilar, jafnt stofnanir, félagasamtök og einstaklingar vinni óeigingjarnt og afar mikilvægt starf á þessu sviði af hugsjón og eldmóði. Þetta sé ómetanlegt og mikilvægt fyrir stjórnvöld og framgang markmiða þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í málaflokknum. „Mestum árangri náum við með því að virkja sem flesta til þátttöku og efla vitund fólks um þá staðreynd að geðheilbrigði er ein af grundvallarforsendum heilbrigðis okkar.“ Hann bendir á að allir geti lagt eitthvað af mörkum: „Með því að rétta út hjálpar hönd, sýna hlýju, skilning og samhug þá getum við öll haft áhrif.“

 

 

  • Gulur september um geðrækt og forvarnir - mynd úr myndasafni númer 1
  • Gulur september um geðrækt og forvarnir - mynd úr myndasafni númer 2
  • Gulur september um geðrækt og forvarnir - mynd úr myndasafni númer 3
  • Gulur september um geðrækt og forvarnir - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum