Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftgæðum í skólum víða ábótavant

Loftgæðum innandyra í skólabyggingum er ábótavant. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og heitir Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi. Fjölmörg úrbótatækifæri eru til staðar m.a. með aukinni samræmingu vinnubragða, heildstæðra mælinga í föstum verkferlum, endurskoðun regluverks, meiri fræðslu og samræmingu verkferla vegna þrifa, að því er fram kemur í skýrslunni.

Ráðherra setti í september 2023 af stað átaksverkefni um kortlagningu innilofts í leik- og grunnskólum á Íslandi. Markmið verkefnisins var að fá yfirsýn yfir stöðuna, en engin heildstæð opinber gögn lágu fyrir um málefnið og skortur var á viðmiðum eða mörkum um ástand innilofts í reglugerðum.

Í tengslum við átaksverkefnið safnaði Umhverfisstofnun saman fyrirliggjandi gögnum vegna rakaástands og loftgæðamælinga frá sveitarfélögum í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Alls bárust gögn frá 17 sveitarfélögum sem afhentu 132 rannsókna- og úttektaskýrslur fyrir 41 leikskólabyggingu og 46 skólabyggingar.

Verkfræðistofan Mannvit ehf., nú COWI Ísland ehf. var fengin til að skoða aðferðafræði og niðurstöður skýrslnanna og er niðurstaða þeirrar vinnu að skortur sé á samræmingu í vinnubrögðum við úttektaskýrslur og því ekki hægt að draga af þeim ályktanir í öllum tilfellum. Niðurstöður bendi engu að síður til þess að loftgæðum innandyra í skólabyggingum sé ábótavant, sérstaklega í þeim skólum þar sem ekkert vélrænt loftskiptakerfi er til staðar.

Telja skýrsluhöfundar fjölmörg úrbótatækifæri vera til staðar og telja að samræma þurfi úttektir til að hægt sé að bera saman, áhættumeta og sníða viðmið, mótvægisaðgerðir eða endurbætur. Þá þurfi að bæta fræðslu til almennings varðandi loftgæði innandyra, tryggja samfellu og skilvirkni við mælingar á loftgæðum og rakaástandi, endurskoða regluverk og útbúa samræmda ferla vegna þrifa.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Börnin okkar eiga skilið að anda að sér heilnæmu lofti á sínum vinnustað. Við höfum öll séð fréttir um fjölmörg tilvik þar sem börn og starfsfólk skóla njóta ekki slíkra réttinda. Þess vegna óskaði ég eftir að þessi skýrsla yrði tekin saman. Skýrslan bendir til þess að loftgæðum innandyra í skólabyggingum sé ábótavant á mörgum stöðum. Þá liggur það fyrir. Næstu skref hljóta að vera að bæta úr og tryggja gæði innilofts í skólabyggingum. Sveitarfélögin þurfa að mínu mati að bregðast hratt og örugglega við.“

Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta