Metár á Ísland.is
Notkun allrar kjarnaþjónustu á Ísland.is óx á árinu 2024. Árið var metár í greiðslum, umsóknum og notkun stafræna pósthólfsins og skilaði þetta mikilli hagræðingu.
Árið 2024 greiddu landsmenn 122 þúsund sinnum fyrir ýmsa þjónustu á vefnum, sem var um 72% allra greiðslna. Greiðslur gegnum Ísland.is jukust um 57% milli ára.
2,8 milljarða ávinningur af stafrænu pósthólfi
Áætlað er að stafrænt pósthólf Ísland.is hafi skilað um 2,8 milljarða króna ávinningi árið 2024. Í árslok 2024 höfðu alls 103 opinberir aðilar tekið pósthólfið í notkun til að nýta til samskipta við einstaklinga og fyrirtæki. Innleiðingu pósthólfsins miðar vel og er stefnt að því að allir opinberir aðilar hafi tengst því á vormánuðum þessa árs. Lausnin tryggir að allir landsmenn, óháð staðsetningu og aðstæðum, hafi aðgang að upplýsingum á stafrænu formi. Þetta tryggir jafnt aðgengi, jafnrétti og gagnsæi í opinberum samskiptum og er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að stafræn samskipti séu meginsamskiptaleiðin við almenning.
Meðfylgjandi mynd sýnir ávinning ársins 2024 af því að íslenska ríkið sendi skjöl með stafrænum hætti í staðinn fyrir hefðbundnar póstsendingar. Í þessum útreikningi er ekki tekið tillit til tíma og vinnu starfsmanns við að prenta skjöl og koma þeim í sendingar, svo gera má ráð fyrir því að ávinningurinn sé töluvert meiri.
Þá skilaði umsóknakerfi Ísland.is umtalsverðum ávinningi á síðasta ári með heildarhagræðingu upp á 900 milljónir króna. Umsóknum sem fóru í gegnum kerfið fjölgaði um 79% milli ára og var heildarfjöldi um 300.000 umsóknir árið 2024. 74 opinberir aðilar nýttu kerfið, þar á meðal stofnanir, sveitarfélög og ráðuneyti.