Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2025 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Atvinnuvegaráðherra á ráðherrafundi ESB og EFTA um samkeppnishæfni

Hanna Katrín Friðriksson er stödd á ráðherrafundur ESB og EFTA á sviði viðskipta og iðnaðar. - mynd

Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, tók í dag þátt í ráðherrafundi ESB og EFTA ríkjanna á sviði viðskipta og iðnaðar, í Varsjá. Á fundinum var fjallað um samkeppnishæfni og stöðu iðnaðar og viðskipta innan evrópska efnahagssvæðisins, meðal annars með hliðsjón af vaxandi spennu á vettvangi alþjóðastjórnmála og utanríkisviðskipta.

Á fundinum lagði ráðherra áherslu á samstöðu og samstilltar aðgerðir meðal Evrópuríkja, þróun innri markaðar EES og mikilvægi EES samningsins fyrir EFTA ríkin. Ísland er afar samþætt virðiskeðjum innri markaðarins í gegnum EES samstarfið. Þegar horft er til hugsanlegra verndarráðsstafana og aðgerða ESB til að tryggja samkeppnishæfni gagnvart öðrum efnahagsveldum er því brýnt að taka einnig mið af stöðu og hagsmunum EFTA ríkjanna í gegnum EES samninginn.

„Sú spenna og óvissa sem er til staðar í dag í alþjóðasamskiptum helstu efnahagsvelda heimsins felur í sér margar áskoranir fyrir viðskipti, iðnað og samkeppnishæfni á evrópska efnahagssvæðinu. Á þessum tímum er afar brýnt að EFTA ríkin komi á framfæri mikilvægi EES samningsins og að EFTA ríkin gleymist ekki í verndarráðstöfunum ESB til að tryggja efnahagslegt öryggi innan Evrópu. Það skiptir máli að við séum við borðið þegar þessi mál eru rædd á vettvangi ESB og að við komum okkar skilaboðum og hagsmunum skýrt til skila áður en ákvarðanir eru teknar“, segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.

Vísar ráðherra í stöðu Íslands sem aðila að evrópska efnahagssvæðinu og mikilvægi þess að EES ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein séu vel upplýst á öllum stigum máls og geti fylgt umræðu málefna er snúa að EES samningnum.

Mikill samhljómur var á fundinum meðal EFTA ríkjanna um að tryggja þurfi að þau njóti jafnræðis til samræmis við ESB ríki. Lögðu þau áherslu á að skuldbindingar ESB á grundvelli EES samningsins séu virtar svo ekki verði t.d. litið á EFTA ríkin sem þriðju ríki í mögulegum verndarráðstöfunum ESB. Er þetta mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni, þar sem að Ísland er ekki hluti af sameiginlegri viðskiptastefnu ESB en Ísland hefur stutt frjáls viðskipti milli landa sem byggja á virðingu fyrir alþjóðalögum.  Ísland hefur lagt áherslu á virka þátttöku á innri markaðnum í gegnum EES samninginn, frjálsa samkeppni, neytendavernd, jöfnun samkeppnisskilyrða, einföldun regluverks, stuðning við nýsköpun, þátttöku í samstarfsáætlunum EBS, afléttingu viðskiptahindrana og stuðning við grænu og stafrænu umbreytinguna.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta