Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs

Mynd: FS Foto og Myriam Marti - mynd

Dagana 8.-10.apríl fór fram þriggja daga ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs. Markmið heimsóknarinnar var að styrkja enn frekar söguleg tengsl Íslands og Noregs og vinna að sameiginlegum hagsmunum þjóðanna, meðal annars á sviði varnarmála, menningar og bættrar geðheilsu.

Gestgjafar forsetahjóna í Noregi voru Haraldur V. konungur og Sonja drottning ásamt Hákoni krónprins og Mette-Marit krónprinsessu. Að auki tók elsta dóttir þeirra, Ingrid Alexandra prinsessa, þátt í sinni fyrstu ríkisheimsókn. Því voru þrjár kynslóðir norsku konungsfjölskyldunnar viðstaddar móttökuathöfn forsetahjóna við Óslóarhöll. Þar voru þjóðsöngvar beggja landa leiknir og forseti gekk og kannaði heiðursvörð. Þá gáfu bæði forsetahjón og krónprinshjónin sér góða stund til að ræða við Íslendinga búsetta í Noregi og Norðmenn sem safnast höfðu saman við höllina af þessu tilefni.

Þriðjudaginn 8. apríl hófst formlega opinber ríkisheimsókn forseta Íslands til Noregs. Dagurinn hófst formlega með móttökuathöfn fyrir framan konungshöllina í Osló. Fjöldi Íslendinga voru til staðar og tóku vel á móti forsetanum. Forsetinn heimsótti Masud Gharahkhani, forseta Stórþingsins í Noregi, og síðar um daginn fór fram viðburður í Viðskiptaháskólanum BI í Osló. Þar átti forseti Íslands samtal við gesti og nemendur háskólans þar sem rætt var um ábyrga forystu í heimi áskorana. Um kvöldið lauk deginum með hátíðarkvöldverði í konungshöllinni.

Miðvikudaginn 9. apríl hófst dagskráin á viðburði á vegum Innovation Norway og Íslandsstofu undir yfirskriftinni „Iceland and Norway: Shaping the Future of the Green Economy“. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir flutti þar glæsilega opnunarræðu. Viðstödd var viðskiptasendinefnd á vegum Íslandsstofu. Í kjölfarið bauð Norsk-íslenska viðskiptaráðið ásamt Íslandsstofu til tengslamyndunarviðburðar um borð Ms Brisen. Þar fóru fram kynningar frá Brim Explorer og Arntzen de Besche, auk ávarpa frá Daði Kristófersson fjármálaráðherra Íslands og Vegard Grøslie Wennesland, aðstoðarráðherra viðskiptamála í Noregi. Næst var heimsótt Fountain House, sem veitir ungu fólki í erfiðri félagslegri eða persónulegri stöðu stuðning og unnið að félagslegri endurhæfingu í gegnum fjölbreytt verkefni. Þar næst átti forsetinn fund með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. Síðar um daginn fór fram áhugaverður bókmenntaviðburður í Háskóla Óslóar með þátttöku Gerðar Kristnýjar, Knut Ødegård, Mette Karlsvik og Halldórs Guðmundssonar, þar sem fjallað var um samskipti og áhrif íslenskra og norskra bókmennta. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Miðstöð íslenskra bókmennta og systurstofnun hennar í Noregi, NORLA (Norwegian Literature Abroad). Deginum lauk á hátíðlegri móttöku í boði forseta Íslands þar sem saman komu fjöldi gesta.

Fimmtudaginn 9. apríl hófst þriðji og síðasti dagur opinberrar ríkisheimsóknar forseta Íslands til Noregs, en hann fór fram í Þrándheimi. Dagurinn hófst á viðburði á vegum Innovation Norway og Íslandsstofu undir yfirskriftinni „Norway and Iceland Seminar – Pioneers of Innovation in the Blue Economy“. Viðburðurinn fór fram við rannsóknarsundlaug hjá SINTEF í Þrándheimi. SINTEF er ein stærsta sjálfstæða rannsóknastofnun Evrópu og vinnur mörg verkefni með Norwegian University of Science and Technology (NTNU) háskólanum. Forseti Íslands flutti opnunarávarp, en einnig flutti Daði Kristófersson, fjármálaráðherra Íslands, ávarp við opnun viðburðarins. Næst var heimsótt Niðarósdómkirkjuna í Þrándheimi þar sem stúlknakór kirkjunnar söng falleg lög. Að lokum var heimsótt Værnes Garrison í Þrándheimi, sem hefur gegnt lykilhlutverki í þjálfun úkraínskra hermanna síðan 2023. Forsetahjónin og sendinefndin fengu þar kynningu og innsýn í þjálfunina.

Sendiráðið þakkar öllum þeim sem komu að forsetaheimsókninni kærlega fyrir samstarfið og fyrir glæsilega heimsókn. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta