Ný stjórn skipuð fyrir Eyvör – hæfnisetur í netöryggis
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra hefur skipað nýja stjórn fyrir Eyvör, hæfnisetur í netöryggi (NCC-IS), og undirritað uppfærðar úthlutunarreglur fyrir netöryggisstyrki Eyvarar. Þá mun hæfnisetrið framvegis heyra undir Fjarskiptastofu. Breytingarnar voru staðfestar og kynntar á fundi ráðherra með stjórn, stýrihópi og fagráði Eyvarar í dag.
Íslensk stjórnvöld, í samvinnu við Fjarskiptastofu, Rannís, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Auðnu, hlutu styrk frá Evrópusambandinu árið 2023 til að koma á laggirnar hæfnisetri í netöryggi. Hæfnisetrið Eyvör (NCC-IS), var síðan formlega stofnað í apríl 2024. Eyvör er hluti af European Cyber Security Competence Center (ECCC).
Eitt af verkefnum Eyvarar er að veita netöryggisstyrki en markmiðið með þeim er að styðja verkefni á sviði netöryggis á Íslandi, bæði fyrir fyrirtæki og opinbera aðila. Fyrsta úthlutun netöryggisstyrkjanna fór fram í haust þegar 13 verkefni hlutu alls 97 milljónir kr. Umsóknarfrestur í vorlotu rann út í mars og alls bárust 40 umsóknir. Úthlutun vorlotu verður kynnt innan skamms.
Í nýrri stjórn Eyvarar sitja fulltrúar frá Fjarskiptastofu (formaður), innviðaráðuneytinu, Rannís, HÍ og HR. Stjórnin er skipuð til tveggja ára.
- Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu og stjórnarformaður.
- Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri innviðaráðuneyti.
- Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti samfélagssviðs HR.
- Sigurður Magnús Garðarsson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ.
- Sigurður Óli Sigurðsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís.
Nánari upplýsingar: