Auglýst eftir söluaðilum vegna fyrirhugaðs útboðs á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf.
Þann 23. júní 2024 voru samþykkt á Alþingi lög um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf. Lögin fela í sér að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum. Slíkt sölufyrirkomulag er talið best til þess fallið að fylgja þeim meginreglum sem áhersla er lögð á við ráðstöfun ríkiseigna: gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Í lögunum er m.a. tilgreint með hvaða hætti safnað er í tvær tilboðsbækur í útboði, hvernig verðlagningu verði háttað og úthlutun fari fram. Tilboð einstaklinga verða í forgangi við úthlutun. Þann 14. mars sl. lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp til breytinga á áðurnefndum lögum, sem felur m.a. í sér að þriðju tilboðsbókinni verði bætt við til að tryggja þátttöku allra fjárfestahópa. Frumvarpið er nú til meðferðar hjá Alþingi.
Þann 5. júlí 2024 var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hf. ráðin af fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að vera sjálfstæður fjármálaráðgjafi ráðuneytisins. Í kjölfarið, þann 21. ágúst 2024, var tilkynnt um að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði ráðið Barclays, Citi og Kviku til að vera umsjónaraðilar í fyrirhuguðu útboði ríkisins á hlutum í Íslandsbanka hf.
Í samræmi við framangreind lög auglýsir fjármála- og efnahagsráðuneytið hér með eftir einum eða fleiri söluaðilum. Áskilið er að viðkomandi sé heimilt að hafa umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar hér á landi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
Lögaðilar sem óska eftir því að taka að sér hlutverk söluaðila og uppfylla skilyrði framangreindra laga skulu sækja um með tölvupósti á netfangið [email protected] með upplýsingum um:
- þekkingu og reynslu af sambærilegum viðskiptum;
- hugsanlegt fjárfestamengi og áætlaða eftirspurn; og
- annað sem viðkomandi telur rétt að komi fram.
Frestur til að sækja um er til kl. 16:00 (GMT) þann 2. maí nk.
Öllum fyrirspurnum varðandi framangreint skal beint á netfangið [email protected].