Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2025 Dómsmálaráðuneytið

Hvernig er meðferð útlendingamála á Íslandi?

Hvernig er meðferð útlendingamála á Íslandi? - myndStjórnarráðið

Stjórnsýsla útlendingamála er lögbundin á Íslandi. Í því felst að lög um útlendinga segja skýrt til um hlutverk ólíkra stofnana sem koma að málum, hvað má gera, hver tekur ákvarðanir og hvernig.

Við meðferð útlendingamála gegna Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála lykilhlutverki.

Dómsmálaráðherra hefur ekki vald til að grípa inn í einstök mál eða einstakar ákvarðanir Útlendingastofnunar eða kærunefndar útlendingamála. Dómsmálaráðherra hefur heldur ekki vald til að veita upp á sitt sjálfdæmi alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi.

Hlutverk Útlendingastofnunar

Útlendingar sækja um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi, langtímavegabréfsáritanir og ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun.

Mat á því hvort að einstaklingur uppfylli skilyrði alþjóðlegrar verndar byggir á viðmiðum flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Ef einstaklingur uppfyllir ekki skilyrði um alþjóðlega vernd er athugað hvort hann eigi rétt á viðbótarvernd eða á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Hlutverk kærunefndar útlendingamála

Heimilt er að kæra ákvarðanir um synjun umsóknar, brottvísun og frávísun til kærunefndar útlendingamála. Nefndin getur ýmist staðfest ákvörðun, breytt henni eða hrundið að nokkru eða öllu leyti. Þá getur nefndin einnig vísað málinu til meðferðar að nýju til Útlendingastofnunar.  Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og af því leiðir gefur ráðherra nefndinni hvorki almenn né sérstök tilmæli um úrlausn mála.

Úrskurði kærunefndar má bera undir íslenska dómstóla.

Umsókn hafnað og frestun réttaráhrifa

Þegar Útlendingastofnun hefur hafnað umsókn um alþjóðlega vernd í kjölfar efnismeðferðar kemur ákvörðun ekki til framkvæmda fyrr en ákvörðun kærunefndar liggur fyrir. Nánar tiltekið að réttaráhrifum er þá frestað og fær útlendingur þannig tvær efnislegar skoðanir á sína umsókn um alþjóðlega vernd, án þess að þurfa eiga yfir höfuð sér brottvísun.

Í eftirfarandi tilvikum frestast ekki réttaráhrif ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings:

  • Ef einstaklingur er að sækja endurtekið um alþjóðlega vernd, eftir að hafa áður fengið endanlega neikvæða niðurstöðu á umsókn um vernd.
  • Ef einstaklingi sem dvelur á landinu er synjað um dvalarleyfi, endurnýjun á dvalarleyfi eða ef stjórnvöld afturkalla dvalarleyfi hans.
  • Ef viðkomandi er ríkisborgari í landi sem er talið öruggt.

Heimfylgd fylgdarlausra barna í samstarfi við barnavernd

Þegar um heimfylgd fylgdarlausra barna er að ræða er vandað til verka og undirbýr heimferðar- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra heimfylgd í nánu samstarfi við barnavernd og það barn sem bíður brottvísunar.

Barnavernd setur sig í samband við barnaverndaryfirvöld í heimalandi og fjölskyldumeðlimi þegar það á við og er tryggt að tekið sé á móti börnunum með viðeigandi hætti. Barni er ekki vísað úr landi fyrr en þetta hefur verið tryggt.

Börn fá ráðgjöf frá sérfræðingum deildarinnar og eru upplýst í viðtölum þegar flutningsdagur nálgast.

Á undanförnum þremur árum hefur heimferðar- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra fylgt fjórum fylgdarlausum börnum, úr landi í kjölfar endanlegrar synjunar á umsókn um alþjóðlega vernd.

Heimfylgd og hlutverk lögreglu

Útlendingastofnun og lögreglu er heimilt að taka ákvörðun um frávísun og brottvísun þeirra sem ekki uppfylla skilyrði laga fyrir komu eða dvöl hér á landi.

Eftir að hafa fengið endanlega ákvörðun um að yfirgefa landið fara langflestir útlendingar sjálfviljugir úr landi, ýmist á eigin vegum eða í samvinnu við Útlendingastofnun.

Ef útlendingur hlýðir ekki tilmælum um að fara úr landi fellur það í hlut lögreglu að framfylgja ákvörðun um frávísun eða brottvísun.  Ávallt er reynt að vanda til verka við að fylgja fólki úr landi og að tryggja að um faglega og mannúðlega framkvæmd sé að ræða.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta