Mælti fyrir frumvarpi sem stuðla á að stafrænni þjónustu og bættu öryggi sjúklinga
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi sínu til breytinga á lögum um sjúkraskrár. Breytingunum er ætlað að stuðla að stafrænni þróun, betri þjónustu og bættu öryggi sjúklinga. Markmið frumvarpsins er einnig að stuðla að hagræðingu og aukinni skilvirkni í heilbrigðisþjónustu.
Í frumvarpinu er lögð til heimild fyrir gjaldtöku vegna vinnu við yfirferð sjúkraskrár, afritun og afhendingu sjúkraskrárgagna til að mæta kostnaði sem af því hlýst. Þá verður heilbrigðisstarfsmönnum heimill aðgangur að sjúkraskrá við stofnun miðlægra lyfjakorta og breytingar á þeim. Þá er hlutverk eftirlitsaðila við meðferð sjúkraskráa skýrt nánar en í gildandi lögum. Í frumvarpinu eru ákvæði sem varða persónuvernd og friðhelgi einkalífs, nánar tiltekið persónuupplýsingar einstaklinga í sjúkraskrám. Þar sem í sjúkraskrám fer fram vinnsla á viðkvæmum persónuupplýsingum ber að kveða á um vinnsluna í lögum og er markmiðið að tryggja persónuvernd og friðhelgi einkalífs.