Vinnustofur haldnar um öryggisráðstafanir
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stóð í dag fyrir vinnustofu um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Markmið hennar var að fá sýn fag- og hagaðila á tillögur starfshóps um úrbætur í málaflokknum.
Fulltrúar félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins greindu frá vinnu og tillögum starfshóps að úrbótum í málaflokknum. Rætt var um fyrirhugaðar breytingar á hegningarlögum, ný lög um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn og útfærslu þjónustu í breyttu kerfi, svo dæmi séu tekin. Þátttakendur unnu síðan í hópum að því að móta fyrirkomulag öryggisráðstafana.
Mættir voru fulltrúar sveitarfélaga, Landspítala, Fangelsismálastofnunar, Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, úrskurðarnefndar um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk, Geðhjálpar, Þroskahjálpar, ÖBÍ réttindasamtaka, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Afstöðu.
Boðað hefur verið til samskonar vinnustofu þann 22. maí næstkomandi þar sem fleiri hagaðilar munu taka þátt.