Frumvarpi atvinnuvegaráðherra um leiðréttingu veiðigjalda dreift á Alþingi
Frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um leiðréttingu á veiðigjöldum hefur verið dreift á Alþingi að lokinni framlagningu í ríkisstjórn og meðferð þingflokka.
Frumvarpið var birt í samráðsgátt frá 25. mars sl. til 3. apríl sl. Samtals bárust 112 umsagnir frá einstaklingum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum, sveitarfélögum, félagasamtökum og stofnunum.
Meirihluti umsagna var jákvæður gagnvart þeim tillögum sem kynntar voru í drögunum. Frá sveitarfélögum komu nokkrar umsagnir þar sem reifaðar voru áhyggjur um að hækkunin væri of brött og skortur væri á greiningum á áhrifum frumvarpsins. Tilgangur frumvarpsins er að gera breytingar á veiðigjöldum sem greidd eru af útgerðum með því að breyta viðmiðum aflaverðmætis í reiknistofni veiðigjalds fyrir síld, kolmunna, makríl, þorsk og ýsu. Þannig muni veiðigjald endurspegla raunverulegt aflaverðmæti og þar með réttlát auðlindagjöld fyrir aðgang að auðlindinni. Einnig eru lagðar til breytingar á frítekjumarki vegna áhrifa frumvarpsins á litlar- og meðalstórar útgerðir. Undirbúningur frumvarpsins mótaðist að miklu leyti af áherslum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar og markmiðum fjármálaáætlunar.
Helstu breytingar sem gerðar voru á frumvarpsdrögum að samráði loknu eru:
- Brugðist er við ákalli sveitarfélaga um að gæta að áhrifum á litlar og meðalstórar útgerðir og lagt til að frítekjumark hækki verulega. Frítekjumark nemur 40% af fyrstu 9 millj. kr. álagningar hvers árs í öllum nytjastofnum nema í þorski og ýsu. Frítekjumark í þorski og ýsu skal nema 40% af fyrstu 50 millj. kr. álagningar veiðigjalds hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila. Með þessum breytingum verða áhrif frumvarpsins á litlar og meðalstórar útgerðir vegna hækkunar veiðigjalds mun minni en áður.
- Í frumvarpinu er líka brugðist við ábendingum um skort á mati á áhrifum. Þannig er meðal annars bætt við greiningum í greinargerð frumvarpsins um áhrif frumvarpsins á u.þ.b. 100 stærstu fyrirtækin, áhrifamati á heildarskattlagningu sjávarútvegsfyrirtækja og ítarlegri samantekt um verðmyndun í Noregi.
Frumvarpið mun hafa jákvæð áhrif á ríkissjóð. Áætlað er að tekjur af veiðigjaldi uppsjávarfiskstegunda hækki um 3-4 milljarða kr. árlega og veiðigjald fyrir þorsk og ýsu hækki um 5-6 milljarða kr. árlega miðað við óbreytt aflamagn. Með þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir má áætla að álagt veiðigjald verði um 19,5 milljarðar árið 2026 en að teknu tilliti til frítekjumarks má áætla að innheimt veiðigjöld verði 17,3 milljarðar árið 2026. Án þeirrar leiðréttingar sem boðuð er samkvæmt frumvarpinu væri áætlað álagt veiðigjald um 11,2 milljarðar króna á grundvelli núgildandi laga. Frumvarpið gerir ráð fyrir að 30 stærstu sjávarútvegsfyrirtækin greiði 90% af veiðigjöldum að loknum breytingum.
Gert er ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði 18-19 milljarðar á árunum 2027-2030. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að gefinn verði út loðnukvóti. Mikil óvissa er um reiknistofn veiðigjalds þar sem hann byggist á afkomu fyrirtækja. Einnig geta sveiflur á milli ára verið tilkomnar vegna breytinga á aflaverðmæti, kostnaði, gengi, aflamagni og skattalegra afskrifta og þannig haft áhrif á áætlanagerðina.