Boðað til samráðsfundar um stöðu menntunar og fræðslu í tengslum við líffræðilega fjölbreytni
Stýrihópur um stefnumótunarvinnu um líffræðilega fjölbreytni boðar til samráðsfundar um stöðu menntunar og fræðslu í tengslum við líffræðilega fjölbreytni. Húsfyllir var á fundi sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hélt nýlega til kynningar á vinnu stýrihóps um stefnumótun fyrir líffræðilega fjölbreytni. Þá hefur þátttaka á samráðsfundum á netinu um málefni lífríkis á landi og lífríkis í hafi og fersku vatni verið einstaklega góð.
Stýrihópurinn beinir nú sjónum sínum að stöðu menntunnar og fræðslu í tengslum við líffræðilega fjölbreytni og boðar því til fjarfundar um málið sem fer fram 7. maí nk. klukkan 13:00.
Hlekk á fundinn er að finna hér fyrir neðan.
Fundurinn eru opinn vettvangur fyrir áhugasama til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og verður þar rætt um hver séu brýnustu viðfangsefnin er varða líffræðilega fjölbreytni.
Meðal málefna sem óskað er ábendinga um er:
- Staða líffræðilegrar fjölbreytni í skólakerfinu frá leikskóla upp í háskóla
- Helstu hindranir við miðlun og fræðslu um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi
- Mögulegar lausnir til að auka þekkingu almennings á öllum aldri
- Hvernig sé hægt að styrkja þá aðila sem sjá um kennslu og fræðslu
- Hvernig hægt sé að efla fjölbreytta fræðslumáta með því að nota verkefni og fræðsluátök sem eru ekki á vegum skóla (þá sérstaklega söfn, félagasamtök, viðburði og fleira)
- Hvert sé hlutverk fagstofnana í fræðslu um líffræðilega fjölbreytni og hvernig megi efla það
- Hvernig sé hægt að sporna við bakslagi, falsfréttum og kvíða í garð umhverfismála á Íslandi og víðar
Sérstaklega er óskað eftir ábendingum frá þeim sem búa yfir sérþekkingu og/eða vinna í tengdum greinum, m.a. frá kennurum og öðru fagfólki um menntun og skólastarf, fulltrúum félagasamtaka sem halda utan um fræðslustörf, fulltrúum annarra stofnana sem sinna fræðslu um líffræðilega fjölbreytni og öðrum sem þekkja vel til og hafa áhuga.
Á fundinum er stefnt að því að ræða hver séu brýnustu viðfangsefni tengd menntun og fræðslu og hvernig efla megi vitund og þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni og gefst þátttakendum tækifæri til að taka þátt í mótun stefnunnar um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi.
Gert er ráð fyrir að fundurinn taki um í eina og hálfa klukkustund. Öll eru velkomin að taka þátt.
Hlekkur á fjarfund: https://zoom.us/j/93908226952?pwd=5gU2HBGTLz7BvnvFyttzQGAj62HZlc.1
Meeting ID: 939 0822 6952
Passcode: 314782