Hoppa yfir valmynd
2. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Færni- og hermikennsla í heilbrigðisvísindum stórefld með HermÍs

Frá opnun hermi- og færniseturs í heilbrigðisvísindum (HermÍs) - myndMYND/Kristinn Ingvarsson

Hermi- og færnikennsla í heilbrigðisvísindum stóreflist með nýju Hermisetri Háskóla Íslands (HÍ) og Landspítala (HermÍs) sem opnað var formlega í vikunni. Setrið er ætlað nemendum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og starfsfólki Landspítalans og býr að kennsluaðstöðu sem mun efla íslenskar heilbrigðisstéttir til framtíðar og auka öryggi sjúklinga. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra sagði í ávarpi við opnunina að með hermisetrinu hefjist nýtt tímabil í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks sem feli í sér mikið framfaraskref. Jón Atli Benediktsson rektor HÍ og Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala fluttu einnig ávörp við opnun setursins og er ljóst af máli þeirra þriggja að setrið er ómetanlegur fengur fyrir kennslu og þjálfun í heilbrigðisgreinum og felur í sér mikil tækifæri.

HermÍs grundvallast á samstarfi Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og menntadeildar Landspítala og hefur m.a. hlotið stuðning frá heilbrigðisráðuneytinu og úr samstarfssjóði háskóla á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Setrið er hugsað fyrir allar heilbrigðisgreinar innan Háskóla Íslands og allt starfsfólks Landspítala, líkt og nánar er sagt frá í tilkynningu á vef HÍ. Þar er einnig birt myndband sem sýnir þau fjölbreyttu verkefni sem hægt er að þjálfa innan HermÍs.

Gefur færi á fjölgun nemenda í heilbrigðisgreinum í framtíðinni

Í setrinu fer fram færni- og hermikennsla sem felst í því að herma með tæknibúnaði eða sýndarsjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Um leið er markmiðið með HermÍs að fjölga þeim nemendum sem hægt er að taka inn í klínískt nám í heilbrigðisgreinum en með setrinu verður mögulegt, þegar fram í sækir, að færa hluta af klínísku námi nemenda frá heilbrigðisstofunum yfir í setrið án þess að afsláttur sé gefinn af þjálfun nemenda.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta