Hoppa yfir valmynd
7. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og Elísabet Dolinda Ólafsdóttir forstjóri Geislavarna ríkisins - mynd

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra heimsótti í liðinni viku Geislavarnir ríkisins. Verkefni stofnunarinnar eru á breiðu sviði og felast í eftirliti með allri notkun geislavirkra efna og geislatækja, rannsóknum, vöktun á geislavirkum efnum í umhverfinu og viðbúnaði vegna geislavár, auk fræðslu og gerð leiðbeininga um geislavarnir.

Í för með ráðherra voru Guðríður Lára Þrastardóttir aðstoðarmaður ráðherra, Ásthildur Knútsdóttir og Guðmann Ólafsson, skrifstofustjórar í heilbrigðisráðuneytinu. Í heimsókninni fengu þau greinargóða kynningu Elísabetar Dolindu Ólafsdóttur forstjóra og nokkurra sérfræðinga stofnunarinnar á víðtæku hlutverki hennar og helstu verkefnum samkvæmt lögum um geislavarnir nr. 44/2022

Lítil stofnun með stórt hlutverk

„Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því hvað þessi litla stofnun gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu og á mörgum sviðum. Í stuttu máli kemur stofnunin við sögu alls staðar þar sem geislun er að því marki að þörf sé á eftirliti og ráðstöfunum til að tryggja öryggi fólks, að ógleymdu hlutverki hennar sem felur í sér samvinnu við erlendar stofnanir á sviði geislavarna og kjarnorkumála og viðbúnað vegna geisla- og kjarnorkuslysa“ segir Alma.

Notkun geislunar er stór þáttur í heilbrigðisþjónustu við greiningu og meðferð sjúkdóma. Þar sinna Geislavarnir ríkisins mikilvægu eftirliti með geislavirkum efnum og röntgentækjum, sinna leyfisveitingum og gæta að öryggi sjúklinga og starfsfólks. Reglubundin vöktun á geislavirkum efnum í umhverfinu er einnig hluti af verkefnum stofnunarinnar sem hefur til umráða næm skimunarkerfi og margvíslegan búnað til að greina geislavirk efni í umhverfissýnum af mikilli nákvæmni. Slíkar mælingar eru t.d. gerðar á andrúmslofti, sjó og regnvatni og einnig í matvælum s.s. mjólk, fiski og lambakjöti. 

Heildarendurskoðun laga um geislavarnir

Unnið hefur verið að heildarendurskoðun laga um geislavarnir og voru drög að slíku frumvarpi birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í október síðastliðnum. Gildandi lög eru að stofni til frá árinu 1985 og hafa tvívegis verið endurskoðuð, síðast árið 2013. Síðan hefur margt breyst sem kallar á endurskoðun laganna, ekki síst í alþjóðlegu samhengi en einnig breyttar aðstæður innanlands, m.a. með tilkomu nýrrar tækni og aukinnar notkunar flókinna geislatækja, einkum í læknisfræði.

Elísabet Dolinda, forstjóri Geislavarna, segir stofnunina standa frammi fyrir ýmsum áskorunum og nýjum verkefnum en búi að hæfu og vel menntuðu starfsfólki. Húsnæðismál stofnunarinnar séu hins vegar sérstakt áhyggjuefni, hvort sem litið sé til húsnæðisöryggis, aðstöðu og aðbúnaðar. Því sé mikilvægt að finna starfseminni öruggt og hentugt húsnæði til framtíðar.

 

 

  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 2
  • Heilbrigðisráðherra heimsótti Geislavarnir ríkisins - mynd úr myndasafni númer 3
  • Ýmis mælitæki og búnaður til geislamælinga og rannsókna er í kjallara húsnæðis Geislavarna - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta