Daði Már flutti opnunarávarp á ráðstefnu Seðlabankans
„Við hittumst hér á afar mikilvægum tímapunkti. Sumar fréttir eru jákvæðar; þróunin hefur verið í átt að auknu jafnrétti, meiri stöðugleika og minni verðbólgu í heimshagkerfinu. Á sama tíma sjáum við aukna spennu og truflanir á alþjóðaviðskiptum. Þetta eru sannarlega krefjandi áskoranir fyrir okkur öll,” sagði Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnhagsráðherra í opnunarávarpi sínu á ráðstefnu Seðlabankans, Reykjavík Economic Conference í dag.
Á ráðstefnunni koma saman fræðimenn og hagstjórnendur til að fjalla um þjóðhagslegar greiningar og stefnumótun og þá útvíkkun sem hefur orðið á markmiðum og hlutverki seðlabanka á síðustu árum.
Alþjóðaviðskipti grunnur árangurs okkar
Daði Már sagði að þrátt fyrir að gjarnan sé talað um Ísland sem lítið hagkerfi og viðkvæmt fyrir áföllum þá sé hagkerfi okkar í hópi þeirra sem best farnast. „Nýlega sá ég í The Economist að Ísland hefur skipað sér í fyrsta sæti á Human Development Index, og er loks komið fram úr Sviss. ”
Þessi velgengni stafi af mikilvægum þáttum á borð við ríkulegar náttúruauðlindir en einnig vegna opins hugarfars þjóðarinnar, mikils trausts á stofnanir samfélagsins, sveigjanleika þessara stofnana og síðast en ekki síst alþjóðaviðskiptum.
Daði Már fór yfir að nokkur áföll hefðu orðið í efnahagsmálum undanfarna áratugi, nú síðast í Covid-19 heimsfaraldri. „Á þeim tíma hrundi útflutningur okkar um 40%, sem er umtalsvert. Við höfum nú náð að jafna okkur eftir þetta áfall og bæta um betur, og erum meðal þeirra þróuðu hagkerfa sem hafa vaxið hraðast síðustu ár.”
„Nýlega hafa náttúruöflin gert það að verkum að um 1% þjóðarinnar þurfti að flytja úr sinni heimabyggð, svo til á einni nóttu. Það var gríðarlegt verkefni, en þetta sést vart í efnahagsgögnum og hefur ekki haft mikil áhrif á efnahaginn í heild. Hvernig má þetta vera? Jú, vegna öflugra varasjóða, lágra skulda heimila og fyrirtækja og viðbúnaðar við óvæntum atburðum.”
Daði Már sagði Íslendingum tamt að nota hugtakið „þetta reddast” og væri þetta viðhorf í raun afleiðing þess að búa við stöðuga óvissu, ekki síst af völdum náttúrunnar.
„Hvað er mikilvægast til að þrífast við slíkar aðstæður? Jú, langtímastefnumótun sem stuðlar að viðbúnaði gagnvart óvissri framtíð og stofnanir sem almenningur treystir.”
Baráttan við verðbólgu er stóra verkefnið
Daði Már sagði að skuldir Íslands eftir Covid-19 væru hærri en ákjósanlegt er. „Það er stefna ríkisstjórnarinnar að styðja Seðlabankann í að ná niður verðbólgu og styrkja enn frekar umgjörð okkar um efnahagsmál. Í nýlegri yfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við úttekt sjóðsins á íslenskum efnahagsmálum er fjallað um nýja fjármálaáætlun til fimm ára. Meginmarkmið áætlunarinnar er að koma jafnvægi á ríkisfjármálin og lækka skuldir. Ekkert styður betur við hagkerfið í framtíðaráföllum en geta stjórnvalda til að örva efnahagslífið þegar þörf krefur.”
Daði Már fór enn fremur yfir þróun tækni og nýsköpunar og aukna framleiðni sem væri forsenda efnahagslegra framfara.
„Þótt færri vinni nú við framleiðslu hafa afköstin aukist, og íslenskur sjávarútvegur er gott dæmi um þetta. Hann hefur aldrei fyrr skapað jafn mikið virði og unnið jafn mikið magn, en aldrei hafa færri starfað við hann. Áskorunin snýr að einstaklingum – þegar kemur að áhrifum tækni á líf fólks – þar þurfum við sem stjórnvöld að geta stutt við endurmenntun þar sem þörf er á.”
Að lokum lagði Daði Már áherslu á að afar mikilvægt væri að styðja áfram frjálslynt heimshagkerfi og það stofnanaumhverfi sem byggist á samskiptum milli þjóða sem grundvallast á reglum.