Hoppa yfir valmynd
8. maí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um sölu Íslandsbanka samþykkt

Fyrr í dag samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 80/2024 um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf. Fyrirhugað er að sala fari fram með markaðssettu útboði á fyrri helmingi ársins þar sem einstaklingar hafa forgang. Lög sem sett voru um sölu eftirstandandi hluta ríkisins í fyrra tryggja að við framkvæmdina á útboðsferlinu verði viðhöfð hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi.

Breytingar á lögunum sem nú hafa verið samþykktar fela í sér að þriðju tilboðsbókinni er bætt við, tilboðsbók C. Sú tilboðsbók veitir eftirlitsskyldum fagfjárfestum sem gera tilboð fyrir eigin reikning með eignir umfram 70 ma.kr., hefðbundnara úthlutunarferli og er talið geta aukið selt magn af bréfum í Íslandsbanka. Var það gert að fenginni ráðgjöf söluráðgjafa með það að markmiði að tryggja aðkomu allra fjárfestahópa og auka líkur á virkari þátttöku stórra fjárfesta án þess að ganga á forgang einstaklinga.

Áfram verður einstaklingum tryggður forgangur og lægsta verð í tilboðsbók A. Í tilboðsbók B verður einnig áfram stuðst við fyrirkomulag hollensks útboðs, þar sem einstaklingar og lögaðilar geta tekið þátt. Með þessum þremur tilboðsbókum verður aðkoma allra fjárfestahópa tryggð og eykur líkur á að ríkissjóður fái hagstætt verð fyrir sinn hlut.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Uppfært fyrirkomulag útboðsins er betur til þess fallið að uppfylla skilyrði laganna um hagkvæmni, jafnræði, hlutlægni og gagnsæi við framkvæmd þess. Það er mikilvægt að ríkissjóður fái sem mest fyrir sinn hlut til þess að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs og það er mikilvægt að ná því markmiði án þess að hreyfa við forgangi almennings sem áfram verður tryggður.”

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta