Hoppa yfir valmynd
8. maí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 31. mars 2025

Efni: Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ráðsmenn: Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Steinn Friðriksson, sérfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Hermann Sæmundsson, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigurður Páll Ólafsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eggert Páll Ólason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.
Fundur hófst kl. 11:00.

1. Staða og horfur í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn fór yfir stöðu, horfur og helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Til umræðu var m.a. aukin óvissa á alþjóðavettvangi. Óbreytt er að innlenda fjármálakerfið stendur traustum fótum. Háir raunvextir geta þó skapað áskoranir á næstu misserum. Viðnámsþróttur einkageirans er mikill, fá merki eru um aukin vanskil heimila og fyrirtækja, en greiðslubyrði heimila hefur þó þyngst. Íbúðaverð er hátt á flesta mælikvarða. Mikið framboð er af húsnæði og talsverð umsvif við húsbyggingar. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun greitt um þessar mundir. Arðsemi af reglulegum rekstri bankanna er góð. Verðtryggingarmisvægi hefur aukist með aukinni eftirspurn eftir verðtryggðum útlánum, sem getur leitt til sveiflukenndari afkomu þeirra. Bankarnir hafa þó gripið til aðgerða til að draga úr misvæginu. Fjallað var um þróun á gjaldeyrismarkaði.

2. Sérstök umræða
a) Viðnámsþróttur greiðslumiðlunar
Viðnámsþróttur greiðslumiðlunar er í brennidepli. Seðlabankinn fjallaði um vaxandi netógn, viðlagahandbók og neyðarferla. Vinna er yfirstandandi við undirbúning framkvæmdar greiðslna án nettengingar, svo tryggja megi almenningi aðgengi að nauðsynjum á borð við mat, lyf og eldsneyti ef á þarf að halda. Reiðufé er enn nærtækasta varaleið í greiðslumiðlun, a.m.k. til skemmri tíma, en styrkja þarf innviði fyrir dreifingu og móttöku þess.
Miðlægur innviður fyrir greiðslubeiðnir er enn í undirbúningi. Seðlabankinn auglýsti í lok nóvember sl. eftir aðilum til að leggja fram tillögu að kostnaði og útfærslu fyrir hann, án skuldbindingar af hálfu aðila. Unnið er úr fram komnum tillögum og skýrsla stýrihóps verkefnisins væntanleg og verður hún kynnt ráðherra.
Seðlabankinn gerði grein fyrir stöðu vinnu við greiningu og mat á mögulegri innleiðingu á TARGET greiðslukerfum Seðlabanka Evrópu, fyrir rauntíma- og stórgreiðslur (TIPS og T2). Niðurstaðna er að vænta haustið 2025.

b) Lánþegaskilyrði – þróun og umræða í nágrannaríkjum
Fjallað var um lánþegaskilyrði, sem annars vegar lúta að hámarki veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og hins vegar hámarki greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda (greiðslubyrðarhlutfall). Þau hafa skilað jákvæðum áhrifum m.t.t. fjármálastöðugleika. Eitt af föstum verkefnum fjármálastöðugleikaráðs er að leggja reglubundið mat á þjóðhagsvarúðartæki og árangur af þeim. Á árinu verður sérstaklega horft til lánþegaskilyrðanna og verður m.a. horft til reynslu nokkurra nágrannaþjóða af beitingu þeirra.

c) Löng óverðtryggð lán til íbúðarkaupa
Fjallað var um húsnæðislánamarkað og óverðtryggða húsnæðislánavexti. Mikilvægi þess að peningastefnan tryggi lága verðbólgu var rædd í samhengi við hagstæðari langa óverðtryggða vexti.

d) Staða gjaldeyrisforða eftir uppgjör ÍL-sjóðs
Þróun gjaldeyrisforða Seðlabankans var til umræðu í tengslum við uppgjör ÍL-sjóðs. Við uppgjörið lækkar forðinn og eykst hlutur forða sem fjármagnaður er með íslenskum krónum, að öðru óbreyttu. Í árslok 2024 var forðinn við neðra viðmið Seðlabankans um æskilega stærð.

3. Önnur mál
Á fundinum var gerð grein fyrir störfum skilavalds frá síðasta fundi ráðsins. Skilaáætlun var samþykkt fyrir Kviku banka í ársbyrjun.
Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt.
Fundi slitið um kl. 12:00.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta