Hoppa yfir valmynd
8. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Samstíga um málefni offitu á Íslandi

Þátttökusáttmáli vinnustofunnar - mynd

Heilbrigðisráðuneytið stóð fyrir þverfaglegri vinnustofu undir heitinu Samstíga um málefni offitu á Íslandi þann 5. maí síðastliðinn á veitingastaðnum Nauthól. Vinnustofan er hluti af vinnu við innleiðingu tillagna starfshóps ráðuneytisins um stefnumarkandi áherslur í forvörnum, heilsueflingu og meðferð, sem lagðar voru fram í skýrslu í mars 2024. Alls voru þátttakendur 60, frá 12 stofnunum og þremur félagasamtökum, fólk með fjölbreyttan bakgrunn og breiða þekkingu. 

Markmið og framkvæmd

Markmið vinnustofunnar var að skapa vettvang fyrir opna umræðu, samráð og lausnamiðaða nálgun viðfangsefnisins sem er eitt af brýnustu heilbrigðismálum samtímans. Rætt var um stöðuna í dag, um mikilvægi forvarna og snemmtækrar íhlutunar, um þau úrræði sem eru fyrir hendi og hvað skortir helst. Áhersla var lögð á fjölbreytta og þverfaglega sýn með jafnt börn og fullorðna í forgrunni. Fjölbreyttur hópur heilbrigðisstarfsfólk kynnti starfsemi og helstu nýjungar á sviði forvarna og meðferðar. Einnig kynntu fagfélög starfsemi sína en fulltrúar félagasamtaka komu frá Samtökum fólks með offitu og aðstandendum þeirra (SFO) , Diabetes Ísland – samtökum fólks með sykursýki og Félagi fagfólks um offitu (FFO). 

Góður andi og samhugur meðal þátttakenda

Þátttakendum vinnustofunnar var skipað í hópa þar sem m.a. var rætt um aðgengi að þjónustu, samvinnu milli þjónustustiga, um fordóma og um þróun þekkingar fagfólks á sviði málaflokksins. Mikill samhugur ríkti meðal þátttakenda sem lögðu áherslu á lausnamiðaða nálgun og sameiginleg markmið. 

Næstu skref – aðgerðaáætlun í mótun

Heilbrigðisráðuneytið mun á næstu dögum vinna úr niðurstöðum vinnustofunnar og kostnaðarmeta tillögur sem þar komu fram. Drög að aðgerðaáætlun um heilbrigðisþjónustu vegna offitu verða síðan lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda.

 

  • Samstíga um málefni offitu á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Samstíga um málefni offitu á Íslandi - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta