Utanríkisráðherra með forseta Íslands í opinberri heimsókn til Svíþjóðar
Öflug norræn samvinna og sameiginlegar áskoranir, meðal annars á norðurslóðum, málefni Úkraínu, viðskipti og varnar- og öryggismál voru efst á baugi funda sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti með sænsku ráðafólki í Stokkhólmi í tengslum við opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Svíþjóðar 6.-8. maí 2025.
Þorgerður Katrín átti tvíhliða fund með Mariu Malmer Stenergard, utanríkisráðherra Svíþjóðar, árla dags á þriðjudag og sat fundi forseta Íslands með Ulf Kristersson forsætisráðherra og Andreas Norlén, forseta sænska þingsins, síðar sama dag. Um kvöldið tók ráðherra þátt í hátíðarkvöldverði í sænsku konungshöllinni ásamt forseta Íslands, auk annarra viðburða sem efnt var til í tilefni af heimsókn forseta til Svíþjóðar.
Á miðvikudag átti Þorgerður Katrín fund með Benjamin Dousa, þróunarsamvinnu- og utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar og á fimmtudag hitti hún að máli Pål Jonsson varnarmálaráðherra og Carl-Oskar Bohlin ráðherra borgaralegra varna í Svíþjóð.
„Svíþjóð er náin frændþjóð okkar Íslendinga, sem er okkur afar kær. Við deilum sömu norrænu gildunum, þá sérstaklega er kemur að mannréttindum og mannúð, sem eiga erindi á alþjóðavettvangi nú sem aldrei fyrr, á þessum víðsjárverðu tímum sem við lifum,“ segir Þorgerður Katrín. „Þá deilum við hagsmunum á norðurslóðum, eigum í virku og öflugu varnarsamstarfi sem viðbúið er að aukist enn frekar, eigum gott samstarf á sviði menntunar og vísinda og þá fara viðskipti milli ríkjanna ört vaxandi en Svíþjóð er meðal stærri viðskiptalanda Íslands innan Evrópusambandsins.“
Ísland og Svíþjóð eiga í góðum og nánum tvíhliða samskiptum sem byggjast á löngum sögulegum tengslum, sameiginlegum norrænum gildum, gagnkvæmri virðingu og samstarfi á fjölmörgum sviðum, svo sem stjórnmálum, efnahagslífi, menntun og rannsóknum, menningu og alþjóðlegu samstarfi á vettvangi helstu alþjóðastofnana.
Þá eiga Ísland og Svíþjóð í nánu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála og skiptir þar mestu samstarf ríkjanna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Auk þessa eru bæði ríkin virkir þátttakendur í norræna varnarsamstarfinu NORDEFCO, samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8), Norðurhópnum svokallaða sem og Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF). Ísland og Svíþjóð undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um samstarf á sviði varnarmála árið 2021.