Aukin áhersla Íslands á öryggis- og varnarmál til umræðu í Washington
Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál fór fram í Washington D.C. í gær. Öflug tvíhliða varnarsamvinna ríkjanna og staða alþjóðaöryggismála voru með helstu umræðuefna.
Þá kynnti íslenska sendinefndin þeirri bandarísku ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að setja varnar- og öryggismál í öndvegi og yfirstandandi vinnu við mótun stefnu í varnar- og öryggismálum fyrir Ísland.
Komandi leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Haag í sumar var sömuleiðis til umræðu sem og stuðningur við Úkraínu og friðarhorfur þar. Enn fremur var rætt um þróun öryggismála á norðurslóðum og áframhaldandi náið samstarf þar að lútandi.
Ísland og Bandaríkin áréttuðu mikilvægi gagnkvæmra varnarskuldbindinga og vaxandi samstarfs um eftirlit og aðgerðir á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum. Rætt var um samvinnu ríkjanna í tengslum við kafbátaleit, þjónustuheimsóknir bandarískra kafbáta, uppbyggingu á varnarinnviðum, varnaræfingar, áfallaþol og netöryggi. Aukinn viðbúnaður og eftirlit á Norður-Atlantshafi tryggir sameiginlega öryggishagsmuni ríkjanna og annarra bandalagsríkja.
María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu alþjóðapólitískra málefna í utanríkisráðuneytinu, og Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins, fóru fyrir sendinefnd Íslands, en auk utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Washington tók fulltrúi frá dómsmálaráðuneytinu þátt í samráðinu. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar voru frá utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneytinu og sendiráðinu í Reykjavík.
Að auki áttu fulltrúar Íslands sérstaka fundi um málefni Mið-Austurlanda og varnarmál.