Aukin áhersla á öryggismál á Norður-Atlantshafi á leiðtogafundi JEF í Ósló
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF – Joint Expeditionary Force) í Ósló. Í JEF-samstarfinu eru ásamt Íslandi hin Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland og Holland.
Umræður leiðtoganna á fundinum beindust meðal annars að stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu í tengslum við stríðið í Úkraínu og aðdraganda leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Haag í sumar. Að auki var sérstök áhersla lögð á umræður um öryggis- og varnarmál í Norður-Atlantshafi og á Norðurskautssvæðinu.
„Ég legg áherslu á að Íslandi taki virkan þátt og veiti forystu í öryggis- og varnarmálum í okkar nærumhverfi í Norður-Atlantshafinu. Þar er Ísland í lykilstöðu og vægi Norður-Atlantshafsríkja hefur aukist á sviði öryggis- og varnarmála á undanförnum misserum,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra um leiðtogafund JEF-ríkjanna.
„Þess vegna er áherslan á þessi málefni afar jákvæð fyrir okkur Íslendinga og ég fagna því að lögmaður Færeyja og formaður grænlensku landsstjórnarinnar hafi tekið þátt í þeim hluta fundarins. Ég legg áherslu á að þó að Ísland sé herlaust ríki þá viljum við styrkja getu okkar til að vinna með bandalagsríkjum að öryggis- og varnarmálum á svæðinu.“
Einnig var rætt um stöðu mála í árásarstríði Rússlands í Úkraínu. „Í óformlegum kvöldverði hjá Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, í gærkvöldi þá ræddum við símleiðis við bæði forseta Bandaríkjanna og Úkraínu. Þar ræddum við meðal annars um mikilvægi þess að þrýsta á að Rússar fallist á að samþykkja og virða 30 daga vopnahlé. Það er nauðsynleg forsenda friðar. Ég bind vonir við að Bandaríkin og Evrópa muni á næstu misserum auka þrýstinginn á Rússland til að binda endi á stríðið í Úkraínu.“
Aðildarríki JEF fögnuðu því á síðasta ári að tíu ár voru þá frá stofnun sveitarinnar en Ísland bættist í hópinn árið 2021. Aðgerðir á vegum JEF hafa undanfarið beinst að eftirlitsaðgerðum og fælingu gegn fjölþáttahernaði, einkum tengt neðansjávarinnviðum, borpöllum og vindorkuverum. Leiðtogafundurinn í Ósló í dag var einnig liður í undirbúningi bandalagsríkja fyrir leiðtogafund NATO í Haag í sumar, einkum hvað varðar áframhaldandi stuðning við Úkraínu og samstarf við ný stjórnvöld í Bandaríkjunum.