Hoppa yfir valmynd
9. maí 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 9. maí 2025

Heil og sæl.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fylgdi Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Svíþjóðar í ríkisheimsókn í vikunni. Þar hitti hún konungsfjölskylduna og átti fundi með kollegum, til að mynda Mariu Malmer Stenergard utanríkisráðherra, Pål Jonson varnarmálaráðherra, Carl Oskar Bohlin almannavarnaráðherra og Benjamin Dousa, alþjóðaviðskipta- og þróunarsamvinnuráðherra. Sendiráðið í Stokkhólmi tók vel á móti íslenska hópnum og gerði ferðinni góð skil á Instagram-reikningi ráðuneytisins.

 

Þorgerður óskaði einnig nýkjörnum páfa, Leó 14., til hamingju og góðs gengis í nýju hlutverki.

Þá lýsti hún yfir áhyggjum vegna þeirra deilna sem eiga sér stað á milli Indlands og Pakistan þessa stundina og hvatti til stillingar af hálfu stjórnvalda beggja ríkja. Utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar kölluði eftir því í sameiginlegri yfirlýsingu að ísraelsk stjórnvöld hverfi frá áformum um að víkka út hernaðaraðgerðir sínar á Gaza og hafa þar varanlega viðveru.

Þorgerður Katrín tók á dögunum á móti Battsetseg Batmunkh, sem er fyrsti utanríkisráðherra Mongólíu til að heimsækja Ísland síðan ríkin tóku upp stjórnmálasamband fyrir fimmtíu árum. Ráðherrarnir undirrituðu við þetta tækifæri viljayfirlýsingu um nánara pólitískt samráð.

  

Þess var minnst í vikunni að 80 ár voru liðin frá því að seinni heimsstyrjöldinni í Evrópu lauk.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að nær tvöfalda stuðning sinn við jafnréttissjóð Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) en sjóðurinn heldur úti verkefnum í þróunarríkjum sem miða að því að auka jafnrétti og valdeflingu stúlkna, með sérstaka áherslu á menntun stúlkna og aukið aðgengi þeirra að tækni- og raungreinum. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn við UNICEF í síðustu viku.

Ísland flutti ávarp í umræðu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Miðausturlöndum í síðustu viku og lýsti yfir áhyggjum af skelfilegu mannúðarástandi á Gaza og hernaðaraðgerðum á Vesturbakkanum sem hafa ágerst undanfarið. Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York, flutti ávarpið fyrir Íslands hönd.

  

Staða alþjóðamála og aukið samstarf á sviði varnarmála voru meðal umræðuefna í reglulegu tvíhliða pólitísku samráði Íslands og Bretlands sem fram fór í London í síðustu viku. Árlegu samráði ríkjanna var hleypt af stokkunum árið 2019, en Bretland er eitt af nánustu samstarfsríkjum Íslands bæði á hinu pólitíska sviði og í varnarmálum.

  

Auðunn Atlason, sendiherra í Berlín, var staddur í þingsal þegar Friedrich Merz hlaut kjör sem kanslari Þýskalands.

  

Sendiráðið í Berlín óskaði knattspyrnukonunni Glódísi Perlu Viggósdóttur til hamingju með sigur hennar og kvennaliðs Bayern Munchen í þýsku bikarkeppninni.

  

Fulltrúar Norðurlandanna á sendiskrifstofunum í Berlín reimuðu á sig knattspyrnuskóna í sólinni í Berlín. Auðunn Atlason tók þátt fyrir Íslands hönd.

  

Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel er einnig sendiherra Íslands gagnvart Hollandi og hélt vegna þessa til Hollands 24. apríl sl. og opnaði sýninguna "Living with Volcanoes" á jarðfræðisafninu Hofland í Laren í Hollandi. Í sömu ferð heimsótti hann Rijksacademie van beeldende kunsten í Amsterdam og kynntist starfsemi þess en akademían býður upp á tveggja ára residensíu fyrir hátt í 50 útskrifaða listamenn í senn. Þar hitt sendiherra fyrir Smára Róbertsson, íslenskan listamann sem hlaut brautargengi sl. haust úr hátt í tvö þúsund umsóknum.

  

Ísland og Noregur tóku í vikunni á móti viðskiptafulltrúum sendiskrifstofa í Brussel, hinum svokallaða TRIBE-hópi. Hópurinn samanstendur af viðskiptafulltrúum frá bæði fastanefndum aðildarríkja ESB og frá sendiskrifstofum ríkja utan þess sem staðsettar eru hér í Brussel. Finnur Þór Birgisson, varamaður sendiherra, tók á móti hópnum fyrir hönd sendiráðsins ásamt Anniken Mordal, viðskiptasendiráðunauti í sendinefnd Noregs gagnvart ESB. Hópurinn fékk stutta kynningu á bæði EES-samningnum og víðtæku fríverslunarneti.

  

Kristján Andri og Finnur Þór voru til viðtals í sitthvoru lagi, annars vegar í Morgunblaðinu og hins vegar í Morgunvaktinni á Rás 1.

  

  

Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, var staddur í Helsinki í vikunni og fékk þar góðar móttökur frá Harald Aspelund og hans fólki í sendiráðinu.

  

Sendiráðið í Helsinki tók á móti góðum hópi frá Sauðárkróki nýverið.

  

Listin og menningin eru ætíð ofarlega á baugi í sendiráðsbústaðnum í Helsinki.

  

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, sótti nýverið fund sendiherra nokkurra Atlantshafsbandalagsríkja sem haldinn var í boði sendiherra Slóveníu. Tilefni fundarins var heimsókn Jean-Charles Ellermann-Kingombe, aðstoðarframkvæmdastjóra bandalagsins. Á fundinum kynnti Ellerman-Kingombe nýjungar í skipulagi og starfsemi bandalagsins og ræddi fjölbreyttar ógnir sem steðja að aðildarríkjum þess. Fundarmenn fengu einnig tækifæri til að spyrja aðstoðarframkvæmdastjórann um ýmislegt varðandi stöðu bandalagsins og málefni Úkraínu.

  

Sendiráðið í Kaupmannahöfn fékk heimsókn frá nemendum í útskriftarárgangi Kársnesskóla í Kópavogi ásamt nokkrum foreldrum. Aldís Guðmundsdóttir og Sigurlína Andrésdóttir kynntu hlutverk utanríkisþjónustunnar og sendiráðsins fyrir hópnum. Nemendurnir útskrifast úr skólanum í vor.

  

Fulltrúar sendiráðsins í Lilongwe heimsóttu mannréttindaskrifstofu Malaví á dögunum og áttu þar gott spjall um stöðu mannréttinda og þau verkefni sem Ísland styður í Malaví.

  

Þá kynntu þau sér námskeið sem fram fór í héraðinu Nkhotakota en það var haldið á grundvelli verkefnis sem IPAS Malawi stendur fyrir og miðar að því að auka aðgengi og þekkingu þegar kemur að kyn- og frjósemisheilbrigði og þungunarrofi.

  

Minningarathöfn í tilefni af 80 árum frá lokum síðari heimsstyrjaldar var haldin í Westminster Abbey í Lundúnum í vikunni, að viðstaddri konungsfjölskyldu, ríkisstjórn, fyrrverandi hermönnum og sendiherrum annarra ríkja. Fulltrúi Íslands var Sturla Sigurjónsson sendiherra.

  

Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, flutti í vikunni vel sóttan fyrirlestur í London School of Economics um „Grænland, Ísland og kerfisbreytingar á N-Atlantshafi“. Sturla Sigurjónsson sendiherra var á meðal áheyrenda.

  

Guðvarður Már Gunnlaugsson, prófessor við Árnastofnun, flutti vel sóttan fyrirlestur um Hauksbók í University College London þar sem eru kenndar norrænar fornbókmenntir. Sturla sendiherra hlýddi á fyrirlesturinn og þakkaði Guðvarði og skipuleggjendum.

  

Alþjóðaorkumálastofnunin og ríkisstjórn Bretlands héldu á dögunum fund um framtíð orkuöryggis, þar sem fulltrúar frá 60 ríkjum og 50 fyrirtækjum komu saman til að ræða þann mikilvæga málaflokk. Sturla sendiherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

  

Hringborð Norðurslóða fór nýverið fram í Nýju Delí og voru Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, á meðal þátttakenda. Benedikt Höskuldsson sendiherra og hans fólk tóku vel á móti þátttakendum og stóðu meðal annars fyrir móttöku þar sem boðið var upp á íslenskan og indverskan mat.

  

   

 

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, hemsótti Gimli í Manitoba á dögunum þar sem hann hitti hóp Vestur-Íslendinga.

  

Þá fór Hlynur fyrir sendinefnd íslenskra orkufyrirtækja sem ferðaðist í vikunni til Whitehorse í Yukon til að kanna tækifæri til samstarfs um þróun jarðhitaauðlinda.

  

Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Washington stóðu fyrir vinnustofu fyrir íslensk fyrirtæki á sviði jarðhita í Utah dagana 29. og 30. apríl. Fulltrúar fimm fyrirtækja tóku þátt í sendinefndinni: ÍSOR, Elements by BBA//FJELDCO, COWI, Orkuveita Reykjavíkur og Jarðboranir. Með í för voru einnig viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og fulltrúi íslenska sendiráðsins í Washington.

 

150 ár eru liðin frá því að fyrstu Vestur-Íslendingarnir fluttust til Manitoba. Áfanganum var fagnað með viðburði í Winnipeg þar sem ýmsir aðilar tóku til máls, til að mynda Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg. Í máli sínu fór hann yfir mikilvægi hins góða sambands Kanadamanna með íslenskan bakgrunn og Íslendinga.

  

Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, átti fund með Marcin Czapliński, varaskrifstofustjóra Evrópuskrifstofu pólska utanríkisráðuneytisins.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra í Washington D.C., átti fund með fulltrúadeildarþingmanninum og Íslandsvininum Rick Larsen í vikunni. Auk þess fundaði hún með fulltrúadeildarþingmanninum Julie Johnson, þar sem stjórnmál og samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru til umræðu. Þá fundaði Svanhildur með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi erindreka framkvæmdastjóra Evrópuráðsins í málefnum úkraínskra barna, og Oksönu Markarova sendiherra. Þá ræddu Svanhildur og Leena-Kajsa Mikkola, sendiherra Finnlands í Bandaríkjunum, utanríkisstefnu Bandaríkjanna við Christopher Landau, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ragnhildur Arnórsdóttir heilsaði upp á Michael McKell, nýjan heiðurskjörræðismann Íslands, í Utah. Kvaðst hún fyrir hönd sendiráðsins í Washington hlakka til samstarfsins. Fastanefnd Íslands í Vín tók þátt í ráðstefnu finnsku formennskunnar í ÖSE um kynjajafnrétti. Þórarinna Söebech og Oddur Ingi Nyborg Stefánsson, starfsmenn þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tóku þátt í fjórða og síðasta undirbúningsfundi fyrir fjórðu alþjóðlegu ráðstefnuna um fjármögnun þróunar (Financing for Development 4, FfD4), og undirbúningsráðstefnunni FfD Forum. Viðburðirnir fóru fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York, undir lok síðasta mánaðar. Ásamt þeim tóku fulltrúar fastanefndar Íslands í New York þátt og fluttu þar innlegg um þróunarsamvinnu, skuldamál og jafnréttismál. Samningaviðræður um útkomuskjal FfD4 halda nú áfram en FfD4-ráðstefnan sjálf fer fram í lok júní í Sevilla á Spáni. Jörundur Valtýsson fastafulltrúi og hans fólk hjá fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tóku á dögunum á móti þingmannanefnd Atlantshafsbandalagsins í Brussel.

Fulltrúar sendiráðsins í Kampala heimsóttu hinar fallegu Kalangala-eyjar í Viktoríuvatni í vikunni til að sjá framvindu verkefnis sem Ísland styður í samstarfi við Holland og miðar að því að bæta kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindum kvenna og ungmenna sem búa á eyjunum. Þær voru á sínum tíma samstarfshérað Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu og var árangurinn af samvinnunni verulegur, einkum er varðar menntamál. Samstarfsverkefnið með Hollandi í Kalangala er liður í stærra verkefni sem kallast Heroes for Gender-Transformative Action. Með stuðningi Íslands verður meðal annars innleidd alhliða kynfræðsla í fimmtán grunnskólum sem sérstaklega er sniðin að þörfum ungmenna með fötlun. Þá verður unnið að uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu, þúsund stúlkum verður boðið upp á HPV-bólusetningar og 1.500 konur fá skimun fyrir leghálskrabbameini. Þá er áformað að tryggja 300 þolendum kynbundins ofbeldis starfsmenntun til að bæta möguleika þeirra til framfærslu.

  

Helga Hauksdóttir, sendiherra í Vín, afhenti forseta Slóveníu, Natašha Pirc Musar, trúnaðarbréf sitt, þann 23. apríl síðastliðinn í athöfn sem fór fram í forsetahöllinni í Ljubljana. Á fundi sínum með forseta Slóveníu ræddi sendiherra um gott tvíhliða samband ríkjanna og stöðuna í alþjóðamálum. Ísland og Slóvenía eiga mjög gott samband og ríka samleið í málflutningi á alþjóðavettvangi, m.a. um mannréttindi, kynjajafnrétti og afstöðuna til innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Til ársins 1991 var Slóvenía hluti af fyrrum Júgóslavíu en við upphaf stríðsins á Balkanskaga lýsti landið yfir sjálfstæði og var Ísland meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Slóveníu í lok árs 1991.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta