Ísland á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr: Rennandi hraun sem byggingarefni framtíðar
Lavaforming, framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr var formlega kynnt í gær þegar íslenski skálinn opnaði og framsækin hugmynd um mögulega framtíð þar sem rennandi hraun úr iðrum jarðar er notað sem byggingarefni mannvirkja og borga, leit dagsins ljós. Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra, flutti erindi við opnun skálans og segir að mikil eftirvænting hafi verið fyrir verkefninu en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í Feneyjartvíæringnum í arkitektúr. Lavaforming byggir á djarfri hugmynd sem sýnir tilraunir og tækifæri í notkun á hrauni. Þannig er staðbundinni ógn breytt í auðlind sem lausn við hnattrænum vanda.
Í sýningarteymi Feneyjatvíæringsins eru Arnhildur Pálmadóttir sýningarstjóri og arkitekt, Arnar Skarphéðinsson arkitekt, Björg Skarphéðinsdóttir hönnuður og Sukanya Mukherjee arkitekt frá s. ap arkitektum, Andri Snær Magnason rithöfundur og Jack Armitage tónlistarmaður og margmiðlunarhönnuður. Um grafíska hönnun sér hönnunarstofan Studio Studio. Arnhildur Pálmadóttir hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 og nýtir margra ára rannsóknir á arkitektúr og umhverfismálum í verkefninu. „Arkitektúr á að vera og verður að vera afl umbreytingar og nýrrar hugsunar. Lavaforming er dæmi um arkitektúr sem vinnur með náttúrunni en ekki á móti henni. Verkefnið sýnir mögulega framtíð sem er tæknilega raunhæf og kröftug á skapandi hátt,“ segir Arnhildur.
Djörf og hagnýt viðbrögð við loftslagsvá
„Skapandi hugsjónafólk, arkitektar, hönnuðir og listamenn, gegna lykilhlutverki í að takast á við þær umhverfisáskoranir sem stafa af loftslagsbreytingum,“segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. „Það sem gerir Lavaforming svo áhrifamikið er að verkefnið snýst ekki aðeins um að ímynda sér grænni framtíð heldur leitast það við að kanna hvernig megi skapa hana. Lavaforming er skýrt dæmi um hvernig skapandi greinar móta djörf og hagnýt viðbrögð við loftslagsvá í sterkum tengslum við umhverfið, innblásið af vísindalegri þekkingu og knúið áfram af sköpunarkrafti og hugmyndaauðgi.“
Ferðalag í þremur hlutum
Mannvirki og innviðir framtíðarborgar Lavaforming, Eldborgar, eru byggð úr rennandi hrauni beint úr jarðskorpunni. Sýningin segir sögu samfélags sem hefur lært að temja hraunflæði, nýta sér það og þannig lært að breyta staðbundinni ógn í tækifæri til sköpunar. Þrjú sýningarrými íslenska skálans draga fram ólík sjónarhorn. Í fyrsta rýminu skoða gestir skoða gögn á skjám sem sýna rannsóknir, upplýsingar um framtíð loftslags og jarðskjálfta á Íslandi, hraunflæðilíkön og efnisprófanir s.ap arkitekta samhliða hönnun framtíðarborgarinnar. Á skjánum verður líka hægt að kynna sér tilraunir hópsins með hraun, en þau hafa rannsakað efnið, brætt það, mótað og kælt í stýrðum aðstæðum. „Hugmyndin er byltingarkennd, ögrar ímyndunaraflinu og gengur út á það aðsýna að hægt er að nota hraun eitt og sér án íblöndunarefna,“ segir Arnhildur. „Við þurfum að gera grundvallarbreytingar á því hvernig við byggjum mannvirki og samfélög og í þannig aðstæðum þarf róttækar hugmyndir þar sem arkitektúr byggir á efni sem er nú þegar til.”
Kvikmynd um framtíðarsamfélag
Í næsta rými sjá gestir stuttmyndina Lavaforming sem gerist árið 2150. Þar er gestum boðið til Eldborgar, framtíðarborgar sem er byggð algjörlega úr hrauni. „Teiknaður heimur er öflug leið til að miðla arkitektúr,“ segir Arnar Skarphéðinsson, meðhöfundur Lavaforming. „Í gegnum kvikmyndina fá gestir góða tilfinningu fyrir heiminum sem við erum að skapa og geta betur skilið hugmyndirnar sem við kynnum í verkefninu.“
Sagan verður raunveruleg
Í þriðja rýminu segja íbúar Eldborgar sögur sínar, hvernig þróun, framfarir í tækni og vísindum sem og breytingar á menningu og loftslagi bjuggu til nýtt samfélag. Þar eru einnig skúlptúrar, svokallaðar „framtíðarleifar,“ unnir úr endurbræddu hrauni, þar sem basaltsteinar og stangir úr basalti mynda undirstöður framtíðarinnviða. „Fyrir rúmri öld þótti byltingarkennd hugmynd að hita hús með jarðhita, leggja rafmagnssnúrur yfir landið og byggja sundlaug í hverjum bæ. Við höfum lært að Ísland sé snautt af auðlindum en kannski getur hraun og basalt gegnt lykilhlutverki sem byggingarefni framtíðarinnar,“ segir Andri Snær Magnasson rithöfundur og einn af teyminu á bak við sýninguna.
Nánari upplýsingar um Lavaforming má nálgast á heimasíðu íslenska skálans.