Hoppa yfir valmynd
9. maí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Lokaval til Jafnréttisverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur

Valnefndina skipa frá vinstri; Sandra Konstatzky, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sanam Narghi Anderlini, Theodoros Rousopoulos þingforseti Evrópuráðsþingsins, Despina Chatzivassailiou skrifstofustjóri Evrópuráðsþingsins, Iris Luarasi og Finnborg Salome Steinþórsdóttir. Á myndina vantar Robert Biedroń - mynd

Jafnréttisverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur eru sameiginlegt framtak íslenskra stjórnvalda og þings Evrópuráðsins en þeim er ætlað að verðlauna einstakling eða samtök sem stuðla að eða styðja með framúrskarandi hætti við valdeflingu kvenna.

Valnefnd þeirra hefur nú tilkynnt um hvaða þrjár tilnefningar eru í lokavali til verðlaunanna í ár. Alls bárust nefndinni 111 tilnefningar víðsvegar að úr heiminum. Verða þau nú veitt í annað skiptið.

Tilnefningar í lokavali til verðlaunanna eru:

  • The Green Girls Organisation (Kamerún) 
    The Green Girls Organisation eru samtök stofnuð af Monique Ntumngia. Þau hafa veitt yfir 12.000 konum og stúlkum þjálfun í sólarorkutækni, gervigreindardrifnum loftslagslausnum og grænu frumkvöðlastarfsemi. Samtökin skapa jafnframt atvinnutækifæri fyrir konur með því að tengja þær við atvinnulíf, fjármagn og tengslanet og berjast jafnframt fyrir kynjajafnrétti í loftslagsstefnum.
  • Gisèle Pelicot (Frakkland) 
    Gisèle Pelicot var ítrekað byrluð lyf og nauðgað  af eiginmanni sínum á níu ára tímabili, frá 2011 til 2020. Eiginmaður hennar bauð einnig tugum karla að nauðga henni meðan hún var meðvitundarlaus. Réttarhöldin yfir honum, sem hún sjálf krafðist að væru höfð opin almenningi og fjölmiðlum, og viðurkenning á sögu hennar - hafa gert hana að tákni hugrekkis og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og hefur ákvörðun hennar um að hafa réttarhöldin opin nú þegar breytt löggjöf í Frakklandi á skilgreiningu á nauðgun og vakið athygli um heim allan á lyfjanauðgunum.
  • Women of the Sun (Palestína) 
    Women of the Sun, stofnuð af Reem Hajajreh, eru sjálfstæð palestínsk samtök sem skapa tækifæri fyrir palestínskar konur til að komast inn á karllæg svið eins og stjórnmál, viðskipti og tækni. Samtökin hafa líka leitt saman palestínskar og ísraelskar konur til að stuðla að samræðum og efla gagnkvæman skilning til að brjóta niður múra og fordóma þeirra á milli.

Verðlaunahafi ársins 2025 verður kynntur við formlega athöfn við setningu þings Evrópuráðsins í Strassborg mánudaginn 23. júní. Verðlaunaféð sem íslensk stjórnvöld greiða eru 60.000 evrur, viðurkenningarskjal og verðlaunagripur, listaverkið „Kvika“ eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur sem unnið úr íslensku hrauni og gleri.

Fyrstu Vigdísarverðlaunin voru veitt árið 2024 til Irida Women's Center í Grikklandi, grasrótarhreyfingu sem vinnur að jákvæðum breytingum í lífi kvenna sem búa við fátækt, félagslega einangrun og kynbundið ofbeldi. Hægt er að kynna sér nánar um Vigdísarverðlaunin á vef þeirra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta