Netverslun í brennidepli norrænna umhverfisráðherra
Loftslagsmál í aðdraganda COP30 í Brasilíu, staðan í alþjóðlegum plastviðræðum og nýjar leiðir við fjármögnun aðgerða fyrir líffræðilega fjölbreytni voru meðal umræðuefna á fundi norrænna umhverfis- og loftslagsráðherra, sem Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sótti í Espoo í Finnlandi í gær. Sérstök umræða var um áskoranir tengdar netverslun almennings í gegn um erlend markaðstorg sem hefur vaxið ört síðustu misseri.
Ný norræn rannsókn leiddi í ljós að 71% vara sem keyptar voru í gegn um netmarkaðstorg á borð við Temu og Shein innihalda skaðleg efni sem ekki eru heimiluð á viðskiptasvæði Evrópska efnahagssvæðisins. Um er að ræða ódýrar vörur sem keyptar eru inn frá þriðja landi og sendar beint til evrópskra neytenda. Fjöldi sendinga frá slíkum nettorgum hefur meira en þrefaldast frá árinu 2022 en rannsóknir hafa sýnt að stór hluti þessara vara uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til öryggis, heilsu, umhverfis og sjálfbærni. Þetta er áhyggjuefni, ekki síst þegar kemur að vörum sem ætlaðar eru börnum, en nýleg könnun sýnir að ólögleg efni voru í 8 af 13 leikföngum og barnavörum frá Temu sem rannsakaðar voru.
„Þetta er óviðunandi og óþolandi og kallar á samræmdar aðgerðir,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Þess vegna er ég ánægður með að Ísland muni leiða nýtt verkefni þar sem sérstök áhersla verður á netverslun og að taka á þeim áskorunum sem henni fylgja.“
Í umræðum um loftslagsmál voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að Norðurlöndin og Evrópa standi saman að því að tryggja metnað í loftslagsviðræðunum sem fram undan eru í Brasilíu í lok ársins, ekki síst í ljósi þeirrar breyttu heimsmyndar sem blasir við þar sem ekki er lengur hægt að reiða sig á stuðning lykilríkja í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hið sama gegnir um lokahnykk plastviðræðna sem fara fram í ágúst í Sviss þar sem vonir standa til að koma á alþjóðlegum samningi sem ætlað er að takast á við aukinn plastvanda í heiminum. Loks kynntu Finnar, sem eru í formennsku Norrænu ráðherranefndarinnar í ár, nýjar aðferðir við fjármögnun aðgerða til að styðja við líffræðilega fjölbreytni sem fela í sér samstarf við atvinnulífið í því verkefni.