Hoppa yfir valmynd
9. maí 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Ný reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni birt í samráðsgátt

Drög að nýrri reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Reglugerðin gildir um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni, samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Sveitarfélög skulu samkvæmt lögunum bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á sértæka frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur og eftir atvikum áður en dagleg kennsla hefst. Einnig á virkum dögum þegar ekki er skóli og þegar hefðbundnir skóladagar eru skertir. Þessi þjónusta tekur við af almennri frístundaþjónustu grunnskóla við lok 4. bekkjar hjá fötluðum börnum og nær fram að lokum framhaldsskóla.

Árið 2019 voru gefnar út leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi framkvæmd ofangreindrar frístundaþjónustu. Reglugerðin sem nú er í samráðsgáttinni kæmi í stað leiðbeininganna.

Þjónustan skal samkvæmt henni vera einstaklingsmiðuð og á því formi sem best hentar viðkomandi. Tryggja skal samfellda þjónustu yfir daginn og vinna gegn félagslegri einangrun fatlaðra barna og ungmenna.

Þá er skýrt kveðið á um það í drögunum að reglugerðinni að ekki sé heimilt að innheimta þátttökugjöld fyrir frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni sem veitt er á grundvelli ofangreindra laga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta