Hoppa yfir valmynd
9. maí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samið við erlenda söluaðila vegna fyrirhugaðs útboðs á hlutum í Íslandsbanka

Í gær samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 80/2024 um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf. Fyrirhugað er að sala fari fram með markaðssettu útboði á fyrri helmingi ársins, þar sem einstaklingar hafa forgang. Lögin, sem sett voru í fyrra um sölu eftirstandandi hluta ríkisins, tryggja að útboðsferlið fari fram með hlutlægni, hagkvæmni, jafnræði og gagnsæi að leiðarljósi. Mikil áhersla er lögð á að ferlið í heild sinni njóti trausts.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið auglýsti eftir söluaðilum vegna fyrirhugaðs útboðs þann 30. apríl síðastliðinn og umsóknarfrestur rann út 2. maí. Mikill áhugi var á verkefninu, ekki síst meðal erlendra aðila.

Að undangengnu ofangreindu ferli hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið ákveðið að ganga til samninga við fjóra aðila til að sinna sölu hlutabréfa í fyrirhuguðu útboði. Um er að ræða fjóra erlenda aðila, en tilkynnt verður um þá innlendu aðila sem sinna munu hlutverki söluaðila í fyrirhuguðu útboði fljótlega.

Söluaðilarnir eru Arctic Securities AS, JP Morgan SE, UBS Europe SE, and ABN AMRO Bank N.V. (í samstarfi við ODDO BHF SCA). Líkt og áður hefur verið tilkynnt, var samið við, Barclays Bank Ireland PLC, Citigroup Global Markets Europe AG og Kviku banka hf. um að vera umsjónaraðilar útboðsins og söluaðilar, og annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins, ásamt utanumhaldi tilboðsbóka.

Öll fyrirtækin hafa heimild til að annast útboð fjármálagerninga án sölutryggingar í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga. Söluaðilarnir þurfa að gangast undir fyrirkomulag útboðsins og fá söluþóknun sem nemur 0,75% af verðmæti þeirra hluta sem viðkomandi söluaðili selur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta