Stöðumat og valkostir um stefnu ríkisins í mannauðsmálum í samráðsgátt
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt í samráðsgátt stöðumat og valkosti um stefnu ríkisins í mannauðsmálum til að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun. Markmið um innleiðingu stefnu ríkisins í mannauðsmálum er sett fram í fjárlögum ársins 2025. Í stöðumatinu er að finna nánari upplýsingar um stöðu mannauðsmála ríkisins, tölfræði um viðfangsefnið, innlenda og erlenda, sem og samanburð við önnur ríki. Stöðumatið gefur yfirlit yfir lykilviðfangsefnin framundan og helstu leiðir ásamt áherslum við úrlausn þeirra.
Nú gefst framkvæmdaraðilum, samstarfsaðilum og hagsmunaaðilum kostur á að taka þátt og koma sínum sjónarmiðum og sérþekkingu um málefnið á framfæri. Með því er hvatt til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn fyrir stefnu ríkisins í mannauðsmálum ásamt áherslum og valkostum. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu.
Að því loknu verða niðurstöður dregnar saman og mótuð stefna um framtíðarsýn mannauðsmála hjá ríkinu ásamt helstu áherslum og markmiðum. Stefnu fylgir yfirleitt aðgerðaáætlun og er ætlunin að slík áætlun fylgi stefnu ríkisins í mannauðsmálum.
Stefnan verður gefin út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og mun ná til allra stofnana ríkisins.
Mikið virði felst í því bæði fyrir starfsfólk ríkisins og stofnanir þess að sett verði fram heildstæð og skýr stefna í mannauðsmálum ásamt aðgerðaáætlun. Í því skyni þarf að skilgreina viðmið fyrir stofnanir og starfsfólk í stjórnun mannauðsmála. Á þann hátt skapast grundvöllur fyrir markvissum árangri í innri starfsemi stofnana, bættu starfsumhverfi fyrir starfsfólk ríkisins, aukinni skilvirkni og fyrst og fremst góðum árangri í þjónustu við samfélagið.
- Nánar um málið í samráðsgátt. Hægt er að veita umsagnir um málið í samsráðsgátt til og með 27. maí.