Sameiginleg yfirlýsing leiðtoga NB8 ríkjanna til stuðnings Úkraínu
Norðurlöndin- og Eystrasaltsríkin (NB8) standa með Úkraínu í átt til friðar og endaloka árásarstríðs Rússlands.
Úkraína vill frið. Norðurlöndin- og Eystrasaltsríkin vilja frið. Við ítrekum ákall okkar um skilyrðislaust og tafarlaust allsherjarvopnahlé í þrjátíu daga, með möguleika á framlengingu. Einungis árásaraðilinn, Rússland, hefur hafnað þessari leið.
Við fögnum skrefum í átt til friðarviðræðna sem byggist á góðum vilja og leggi grunn að réttlátum og varanlegum friði. Við þökkum Volodómír Selenskí, forseta Úkraínu, fyrir að vera reiðubúinn að mæta til slíkra viðræðna. Í aðdraganda viðræðna hvetjum við Rússland til að láta af öllum árásum á óbreytta borgara og borgaralega innviði. Við erum reiðubúin til að beita frekari þvingunaraðgerðum í samstarfi við Evrópusambandið, Bandaríkin og önnur samstarfsríki ef vopnahlé verður ekki virt.