Skipar stýrihóp til að vinna að breytingum á byggingarregluverki
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað stýrihóp um endurskoðun á byggingarreglugerð. Hópnum er ætlað að vinna tillögur um gagngerar breytingar á regluverkinu með áherslu á að einfalda umgjörð um byggingariðnað til að lækka byggingarkostnað og leggja grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Honum er einnig ætlað að fylgja tillögunum eftir og vinna að breyttu fyrirkomulagi byggingareftirlits til að auka neytendavernd og draga úr byggingargöllum.
Verkefni hópsins eru þannig tvíþætt:
1. Einföldun byggingarreglugerðar (minnkun reglubyrðis) með það fyrir augum að auka svigrúm fyrir hönnuði, framkvæmdaraðila og aðra hagaðila til að útfæra hagkvæmar og skilvirkar lausnir við uppbyggingu íbúða.
2. Breytt fyrirkomulag byggingareftirlits til að draga úr byggingargöllum, auka neytendavernd og auka skilvirkni í stjórnsýslu.
Í stýrihópnum eru:
- Hreiðar Ingi Eðvarðsson, formaður, fulltrúi ráðherra,
- Hildur Dungal, fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytis,
- Helga María Pálsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga,
- Hermann Jónasson, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar,
- Sigurður Hannesson, fulltrúi Samtaka iðnaðarins.
Með hópnum starfar einnig starfsfólk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.