Hoppa yfir valmynd
14. maí 2025 Innviðaráðuneytið

Áform um lagabreytingar á sviði sveitarstjórnarmála kynnt í samráðsgátt

Áform um lagabreytingar sem innviðaráðherra hyggst leggja fram á næsta haustþingi til að styrkja sveitarstjórnarstigið og auka sjálfbærni sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 o.fl. (skattlagning orkumannvirkja), og hins vegar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (endurskoðun sveitarstjórnarlaga). Frestur til að veita umsögn um áformin er til 9. júní nk.

Markmið breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er að tryggja sanngjarnari hlutdeild nærsamfélaga í ávinningi af raforkuframleiðslu og auka sjálfbærni sveitarfélaga. Í því skyni verður lagt til að fella úr gildi undanþágu rafveitna (vatnsafls-, jarðvarma- og vindaflsvirkjana) frá fasteignamati og að settar verði reglur um hvernig tekjum af fasteignaskatti verði dreift til sveitarfélaga þegar rafveita og áhrifasvæði hennar nær yfir tvö eða fleiri sveitarfélög.

Markmið breytinga á sveitarstjórnarlögum er m.a. að tryggja að sveitarstjórnarlögin fylgi framþróun sveitarstjórnarstigsins og að þau séu skýr og aðgengileg. Þá er einnig markmið með breytingunum að auka sjálfbærni sveitarfélaga. Breytingarnar snúa m.a. að almennum umbótum á I.-VI. kafla sveitarstjórnarlaga, reglum um fjármál sveitarfélaga og atvinnuþátttöku þeirra, eftirliti með sveitarfélögum, reglum um samvinnu, sjálfbærni sveitarfélaga og getu þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og fleira.

Samráðsferlið mun halda áfram á haustmánuðum þegar drög að frumvörpum verða kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Mikilvægt er að sveitarstjórnarfólk, íbúar sveitarfélaga og hagaðilar taki virkan þátt í samráðinu um þessi áform. Samtalið er nauðsynlegt til að tryggja að löggjöf um sveitarfélög endurspegli raunveruleika og þarfir sveitarfélaga og virk þátttaka í samráði eykur líkurnar á að vel takist til. Sterkt sveitarstjórnarstig er forsenda þess að allir landsmenn njóti sambærilegrar þjónustu og jöfn tækifæri hvar sem þeir búa og er fólk því sérstaklega hvatt til að kynna sér áformin og taka þátt í samráðinu.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta