Hoppa yfir valmynd
14. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Heimsókn heilbrigðisráðherra til Svíþjóðar

Alma D. Möller og Acko Ankarberg Johansson - mynd

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra var með í för í opinberri heimsókn forseta Íslands til Svíþjóðar í liðinni viku. Í ferðinni átti hún meðal annars fundi með Acko Ankarberg Johansson heilbrigðisráðherra, Jakob Forssmed félagsmálaráðherra og Björn Eriksson forstjóra Socialstyrelsen um málefni sem eru sameiginleg viðfangsefni landanna tveggja á sviði heilbrigðis- og velferðarmála. Meðal annars var rætt um stöðu sérnáms í læknisfræði og gagnkvæma viðurkenningu á sérnámsgrunni lækna. Heilbrigðisráðherra heimsótti jafnframt barnahús og Sylviahemmet sem er sérhæfð dagdvöl fyrir einstaklinga með minnissjúkdóma.

Alma segir fundina hafa verið gagnlega. Á fundum með Acko Ankarberg Johansson og Jakob Forssmed bar ýmis mál á góma. Meðal annars málefni tengd ADHD (athyglisbresti og ofvirkni) og stöðu og þróun greininga og meðferðar. Einnig ræddu ráðherrarnir um heilbrigðisþjónustu á krísutímum og um skipulag heilsugæslu, meðal annars með áherslu á tengsl einstaklinga við heimilislækni og fleira því tengt. Ofbeldi og glæpir meðal ungs fólks, andleg líðan og áskoranir samtímans í þeim efnum voru einnig umræðuefna ráðherranna. Á fundunum var lögð áhersla á vinna að áframhaldandi styrkingu samstarfs milli landanna. 

Mikilvægt samtal

Í samtölum við Acko Ankarberg Johanssonn heilbrigðisráðherra og Björn Eriksson, forstjóra Socialstyrelsen lagði Alma áherslu á sérnám heilbrigðisstétta, einkum lækna. Íslenskir læknar hafa til fjölda ára sótt í miklum mæli til Svíþjóðar í sérnám í ýmsum greinum. Þeir hafa í vaxandi mæli lokið hluta sérnámsins hér heima en á síðustu árum hefur verið torveldara að fá áframhaldandi sérnámsstöður í Svíþjóð og tengist það breytingum á skipulagi námsins í löndunum tveimur. „Ég ræddi þetta bæði við heilbrigðisráðherrann og forstjóra Socialstyrelsen. Þótt lausn liggi ekki fyrir er mikilvægt að þetta samtal sé hafið og að því verði haldið áfram. Það var ánægjulegt að finna skilning þeirra á því að slík lausn verði til hagsbóta fyrir heilbrigðiskerfi beggja landa“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

 

 

  • Alma D. Möller og Jakob Forssmed - mynd
  • Alma D. Möller og Björn Eriksson - mynd
  • Heimsókn heilbrigðisráðherra til Svíþjóðar - mynd úr myndasafni númer 3
  • Heimsókn heilbrigðisráðherra til Socialstyrelsen - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta