Hoppa yfir valmynd
14. maí 2025 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænir ráðherrar menntamála og rannsókna ræddu hæfniþróun og aðlögun háskóla að heimi gervigreindar

Norrænir ráðherrar menntamála og rannsókna í Helsinki. - mynd

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sótti á dögunum fund í Helsinki á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir, ásamt fulltrúum úr menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Á fundi ráðherranefndarinnar þann 6. maí sl. ræddu ráðherrarnir leiðir til að bæta námsárangur í grunnmenntun, með sérstakri áherslu á aukið jafnrétti í menntun og betra námsumhverfi sem styður við nám. Samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar 2025–2030 leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja gott skólastarf og bæta grunnfærni á Norðurlöndum. Aukin áhersla er á að efla samstarf sérfræðinga og nýta alþjóðlegar og innlendar rannsóknir á menntun á Norðurlöndum.

Ráðherrarnir ræddu einnig rannsóknar-, þróunar- og hæfniþarfir sem hröð þróun gervigreindar hefur skapað og hvernig og með hvaða aðferðum Norðurlöndin geta mætt þessum þörfum, og haft áhrif á þróun málaflokksins. Norðurlöndin hafa frábæra möguleika til að vera brautryðjendur í vísindum og tækni þegar kemur að því að nýta sér þau tækifæri sem stafræn umbreyting og gervigreind hafa í för með sér, en einnig er þörf á að marka sameiginlega sýn um siðfræði og lagaumgjörð gervigreindar og tengsl hennar við háskólastarf og rannsóknir. Að auki geta Norðurlöndin unnið saman að því að skilgreina og skýra hlutverk háskóla gagnvart samfélaginu á tímum ört vaxandi áhrifa og notkunar gervigreindar. Logi lagði sérstaka áherslu á að Norðurlöndin leggi norræn gildi til grundvallar slíkri samvinnu:

„Við eigum að þróa lausnir sem ná þvert á svið og laða hingað alþjóðlega sérfræðinga. Við eigum að byggja á norrænum gildum og sérstöðu okkar sem Norðurlandaþjóð. Við eigum að vinna saman og leggja áherslu á þau sjónarmið okkar að gervigreindin eigi að þjóna fólki og lýðræðinu, einnig í evrópsku samstarfi. Þannig á sameiginleg rödd okkar að hljóma því þar liggur styrkur okkar.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta