Stórt skref stigið í átt að stofnun dómstóls vegna glæpa gegn friði gagnvart Úkraínu
Á árlegum ráðherrafundi Evrópuráðsins sem lauk í Lúxemborg í dag var stigið mikilvægt skref í átt að skipan sérstaks dómstóls vegna glæpa gegn friði gagnvart Úkraínu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum. Þar afhentu úkraínsk stjórnvöld formlegt bréf, þar sem þess var óskað að sérstaki dómstóllinn verði settur á stofn á vettvangi Evrópuráðsins með tvíhliða samningi við Úkraínu. Í kjölfarið verður aðildarríkjum Evrópuráðsins og ríkjum utan þess boðið að gerast aðilar að samstarfssamningi um dómstólinn.
Því var einnig fagnað 9. maí sl. í Lviv í Úkraínu að kjarnahópur ríkja, sem Ísland á aðild að, hafði lokið lagalegum undirbúningi málsins og var sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu, Friðrik Jónsson, fulltrúi Íslands á viðburði af því tilefni.
Dómstóllinn er ein af þremur stoðum ábyrgðarskyldu Rússlands vegna innrásarstríðsins í Úkraínu. Fyrst var tjónaskrá sett á laggirnar, en hún varð að veruleika á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í maí 2023. Tjónaskráin tekur til helstu tjóna sem innrás Rússlands í Úkraínu hefur leitt af sér og starfar á vettvangi Evrópuráðsins. Nú hafa verið stigin formleg skref til þess að dómstóll vegna glæpa gegn friði verði að veruleika á vettvangi Evrópuráðsins. Lokastoðin sem unnið er að er stofnun skaðabótanefndar, sem vonir standa til að hægt verði að ljúka vinnu við síðar á þessu ári.
Leiðtogafundurinn í Reykjavík markaði djúp spor
Eftirfylgni leiðtogafundarins í Reykjavík og innleiðing Reykjavíkuryfirlýsingarinnar frá þeim fundi var meðal meginefnis á fundi utanríkisráðherranna í morgun.
„Ábyrgðarskylda Rússlands er lykilatriði ef tryggja á varanlegan og réttlátan frið í Úkraínu. Það umfangsmikla tjón sem orðið hefur í Úkraínu vegna stríðsins verður skráð í tjónaskrá sem sett var á fót á leiðtogafundinum í Reykjavík og jafnframt er mikilvægt fyrir alþjóðasamfélagið að bregðast við glæpum gegn friði með sérstökum dómstóli. Það er afar ánægjulegt að sjá hve djúp spor leiðtogafundur Evrópuráðsins á Íslandi markaði og hvernig sú vinna er enn að varða okkur leið áfram í þessari vegferð“, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. Í ræðu sinni lagði ráðherra sérstaka áherslu á að Evrópuráðið þurfi að bregðast mjög ákveðið við því bakslagi sem nú á sér stað þegar kemur að jafnréttismálum, málefnum hinsegin fólks og réttindum minnihlutahópa.
Á ráðherrafundinum var sömuleiðis gengið frá samþykktum um lýðræðismál á grundvelli Reykjavíkuryfirlýsingarinnar og tíu meginreglna um lýðræðismál (Reykjavik Principles for Democracy).
Í tengslum við ráðherrafundinn undirritaði ráðherra einnig nýjan alþjóðasamning Evrópuráðsins um verndun starfsstéttar lögfræðinga og átti tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Lúxemborgar, Möltu og Andorra.