Hoppa yfir valmynd
15. maí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Daði Már tók þátt í að stýra aðalfundi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu

Daði Már Kristófersson ásamt öðrum fulltrúum á aðalfundi EBRD.  - myndMynd/EBRD

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók í dag þátt í að stýra 34. aðalfundi Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) sem haldinn var í London dagana 13.-15. maí. Fjármálaráðherra hefur verið varaformaður eigendanefndar bankans undanfarið ár og tók Daði Már við því hlutverki þegar hann tók við embætti ráðherra.

Á fundinum var umræða um stefnumótun bankans til næstu fimm ára sem hefur verið í undirbúningi síðan 2019. Þar var lögð enn ríkari áhersla en áður á fjárfestingu í verkefnum tengdum loftslagsmálum og jafnrétti. Flestir fulltrúar hluthafa bankans lýstu stuðningi við þá vegferð í ræðum sem fluttar voru á fundinum.

Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu er alþjóðleg fjármálastofnun sem fjármagnar verkefni á vegum einkafyrirtækja og opinberra aðila. Starfsemi bankans nær til yfir 30 landa - frá Austur-Evrópu til Mið-Asíu og Suður- og Austur-Miðjarðarhafs. Bankinn fjárfestir árlega fyrir yfir 16 milljarða evra í fjölbreyttum verkefnum í þeim löndum sem hann starfar.

Á fundinum voru einnig boðin velkomin ný lönd í hluthafahópinn hvar bankinn mun í framtíðinni ráðast í fjárfestingar en það eru Afríkuríkin Benín, Fílabeinsströndin og Nígería. Bankinn hefur að undanförnu unnið að stækkun áhrifasvæðis síns til landa sunnan Sahara í Afríku og er aðild þessara ríkja liður í því verkefni.

Í ræðu ráðherra kom m.a. fram stuðningur Íslands við áframhaldandi uppbyggingu í Úkraínu en bankinn hefur leikið lykilhlutverk í enduruppbyggingu innviða þar eftir að innrás Rússlands. Er það gert í góðu samstarfi við hluthafa bankans og kom fram víðtækur stuðningur við það verkefni í ræðum flestra á fundinum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta