Leiðin til Haag og friðarumleitanir í Úkraínu
Aukin framlög til varnarmála, undirbúningur fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, friðarumleitanir og áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu voru í brennidepli á óformlegum fundi utanríkisráðherra bandalagsins, sem lauk í Tyrklandi fyrr í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum.
Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fer fram í Haag dagana 24.-25. júní nk. og ræddu utanríkisráðherrarnir efnistök og skipulag fundarins, en fyrirséð er að í Haag verði m.a. samþykkt ný viðmið um stóraukin framlög til varnarmála. Mikilvægi Atlantshafstengslanna og jafnari byrðar innan bandalagsins voru sömuleiðis til umræðu, sem og ógnin frá Rússlandi. Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og friðarumleitanir Bandaríkjanna voru einnig áberandi í umræðunni en utanríkisráðherrafundinn bar upp á sama tíma og augu alþjóðasamfélagsins beinast að Tyrklandi sem vettvang friðarviðræðna. Málefni Miðausturlanda og skelfileg staða á Gaza kom einnig til umfjöllunar.
„Góð samstaða og samheldni einkenndi umræður á fundinum í aðdraganda leiðtogafundar í Haag. Það er alveg skýrt hvaðan helsta ógnin steðjar, frá Rússlandi, og aukin framlög og viðbúnaður Atlantshafsbandalagsins tekur mið af því. Í þeim efnum mun Ísland axla ábyrgð. Við erum að auka verulega framlög til varnarmála og stuðning við Úkraínu, og í mótun er ný öryggis- og varnarstefna.
Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu var sömuleiðis afgerandi á fundinum og öll vonum við, ekki síst Úkraína, að friðarviðræður skili árangri. Þar er ólíkum saman að jafna og lítill vilji til friðar hjá Kremlarvaldinu. Þá blasti við að málefni Miðausturlanda, ekki síst hörmungarnar á Gaza, kæmu til umræðu og þar hefur Ísland talað mjög skýrri röddu,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Utanríkisráðherrar bandalagsríkja funda að jafnaði einu sinni á ári með óformlegum hætti þar sem áhersla er lögð samtal og umræðu í stað formlegra ákvarðana. Um var að ræða síðasta fund utanríkisráðherra fyrir leiðtogafundinn í Haag, en varnarmálaráðherrar bandalagsríkja funda í júníbyrjun.