Hoppa yfir valmynd
16. maí 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 16. maí 2025

Heil og sæl.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra var á ferð og flugi í þessari viku. Tók hún meðal annars þátt í óformlegum fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í borginni Antalya í Tyrklandi. Aukin framlög til varnarmála, undirbúningur fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, friðarumleitanir og áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu voru í brennidepli á fundinum. Það voru málefni Miðausturlanda og skelfileg staða á Gaza einnig til umfjöllunar. Á fundinum hitti hún Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

 

Áður en hún hélt til Tyrklands tók hún þátt í árlegum ráðherrafundi Evrópuráðsins í Lúxemborg en þar var stigið mikilvægt skref í átt að skipan sérstaks dómstóls vegna glæpa gegn friði gagnvart Úkraínu. Þar afhentu úkraínsk stjórnvöld formlegt bréf, þar sem þess var óskað að sérstaki dómstóllinn verði settur á stofn á vettvangi Evrópuráðsins með tvíhliða samningi við Úkraínu. Í kjölfarið verður aðildarríkjum Evrópuráðsins og ríkjum utan þess boðið að gerast aðilar að samstarfssamningi um dómstólinn. Meðal þeirra sem Þorgerður Katrín hitti í Lúxemborg voru utanríkisráðherrar Andorra, Möltu og Lúxemborg.

 

Þá fundaði hún með Volodómír Selenskí Úkraínuforseta og leiðtogum 30 ríkja sem saman voru komnir til að sýna varnarbaráttu Úkraínu stuðning. Þorgerður Katrín óskaði Johann Wadephul til hamingju en hann tók nýverið embætti utanríkisráðherra Þýskalands.

Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins (SACEUR) sem jafnframt er yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu, heimsótti Ísland í vikunni. Cavoli fundaði með utanríkisráðherra sem gerði grein fyrir aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á öryggis- og varnarmál og yfirstandandi stefnumótunarvinnu. Þá voru horfur í öryggismálum og varnarviðbúnaður bandalagsins sömuleiðis til umræðu.

  

Í vikunni tóku utanríkisráðuneytið og Íslandsstofa á móti öllum viðskiptafulltrúum Íslands á erlendum mörkuðum. Heimsóknin var liður í því að efla samstarfið, auka skilning viðskiptafulltrúa á þörfum íslenskra fyrirtækja og veita þeim betri innsýn í helstu atvinnugreinar, nýsköpunarumhverfið og tækifæri til útflutnings.

  

Ómönnuð eftirlitsflugvél Bandaríkjahers, af gerðinni MQ9 - Reaper, kom til landsins nýverið og flaug tilraunaflug frá Keflavíkurflugvelli í byrjun vikunnar. Vélin tekur nú þátt í æfingu Atlantshafsbandalagsins „Formidable Shield 2025“ sem fram fer vestan við Skotland og stendur fram í næstu viku.

  

Hópur íslenskra netöryggissérfræðinga tók þátt í stærstu netöryggisæfingu í heiminum, Skjaldborg 2025 (Locked Shields 2025), dagana 28. apríl til 9. maí. Rúmlega 4.000 þátttakendur frá 41 landi tóku þátt í æfingunni, sem skiptust í 17 fjölþjóðleg lið sem kepptust sín á milli. Ísland myndaði sameiginlegt lið með Svíþjóð og Bandaríkjunum.

 

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna undirrituðu á fundi sínum í Rovaniemi í Finnlandi 6.-7. maí sl. uppfært stofnsamkomulag norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Uppfærslan endurspeglar breytt umfang norræns varnarsamstarfs og breyttar áherslur, þ.e. að allt norrænt varnarsamstarf styrki fælingarmátt og sameiginlegar varnir Atlantshafsbandalagsins, og efli getu Norðurlandanna til að vinna saman að vörnum á öllum sviðum. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.

  

Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál fór fram í Washington D.C. í síðustu viku. Öflug tvíhliða varnarsamvinna ríkjanna og staða alþjóðaöryggismála voru með helstu umræðuefna. Þá kynnti íslenska sendinefndin þeirri bandarísku ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að setja varnar- og öryggismál í öndvegi og yfirstandandi vinnu við mótun stefnu í varnar- og öryggismálum fyrir Ísland.

  

Jafnréttisráðstefna ÖSE var haldin í Vínarborg í vikunni sem leið undir yfirskriftinni „Building resilience through inclusion and empowerment“, þar sem fjallað var um áskoranir og helstu hindranirnar í vegi kynjajafnréttis á ÖSE-svæðinu. Mikil umræða var um ályktun 1325 um konur, frið og öryggi og um leiðir til að tryggja aukna þátttöku kvenna í öryggis- og friðarmálum, hvernig útrýma megi kynbundnu ofbeldi gegn konum og stúlkum og einnig stafrænu einelti og hvernig tryggja með jöfn tækifæri fyrir konur og stúlkur í stafrænum heimi. Sendinefnd Íslands á jafnréttisráðstefnu var skipuð Auði Eddu Jökulsdóttur, erindreka jafnréttismála í utanríkisráðuneytinu, Helgu Hauksdóttur, fastafulltrúa gagnvart ÖSE í Vín og Antoine Buffin, sérfræðingi hjá fastanefnd Íslands í Vín.

  

Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir, sendiherrahjónin í Helsinki, opnuðu í vikunni myndlistarsýninguna Untimely í sendiráðsbústaðnum. Er hún eftir hina íslensku Þorgerði Ólafsdóttur og hina finnsku Kaisu Koivisto.

  

Þá var Harald viðstaddur opnun sýningarinnar A Boy and a Girl and a Bush and a Bird eftir Ragnar Kjartansson. Harald flutti ávarp á opnunarviðburðinum og listamaðurinn sjálfur flutti tónlist fyrir viðstadda.

  

Það var hátíðleg stund þegar fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala, utanríkisráðuneytisins og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) tóku þátt í afhendingu á mikilvægum búnaði og lækningatækjum, fjármögnuð af íslensku þróunarfé, á aðalheilsugæslustöð Namayingo-héraðs í Úganda í vikunni. Afhendingin er liður í STOP-verkefninu svonefnda sem Ísland styður við í gegnum UNFPA en markmið þess er að vinna gegn fæðingarfistli í héraðinu og styður konur sem hafa þjáðst af þeim sökum til að fóta sig á ný í samfélaginu. Búnaðurinn sem var afhentur er af ýmsu tagi, allt frá hlífðarfatnaði upp í fullkomin skurðarborð og lækningatæki til að greina og meðhöndla fistúlu. Samhliða afhendingunni var efnt til sérstaks átaks á heilsugæslustöðinni þar sem konum úr héraðinu gafst tækifæri til þess að gangast undir meðferð við fæðingarfistli sér að kostnaðarlausu.

  

Hlutverk breska flotans a norðurslóðum var á meðal umræðuefna þegar Sturla Sigurjónsson sendiherra í London þáði boð Luke Pollard aðstoðarvarnarmálaráðherra Bretlands um borð i freigátunni HMS Sutherland sem liggur við festar á Thames-fljóti.

  

Sturla bauð til viðburðar í vikunni þar sem Sigrún Davíðsdóttir blaðamaður spjallaði við Fríðu Ísberg um verk hennar og íslenskar bókmenntir almennt. Verðlaunaskáldsaga hennar, „Merking“, hefur verið þýdd yfir á 19 tungumál og var gefin út á ensku í fyrra.

  

Greint var frá ferð íslenskrar sendinefndar til Yukon í síðasta föstudagspósti. Á leið heim eftir vel heppnaða ferð gerði hópurinn sér lítið fyrir og stoppaði í Vancouver. Hlynur Guðjónsson sendiherra var hluti af hópnum en þar hittu þátttakendur fyrir Glenn Sigurdson, heiðurskjörræðismann Íslands í Vancouver.

  

Starfsmenn sendiráðs Íslands í París tóku á móti nemendum í alþjóðasamskiptum frá Sciences Po háskólanum í vikunni. Hópurinn fékk kynningu á áherslum Íslands á alþjóðavettvangi og á starfsemi sendiráðsins og fastanefnda í París. Flottir nemendur sem höfðu m.a. mikinn áhuga á að ræða stöðu Íslands innan Evrópu í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og öryggi á norðurslóðum.

  

Starfsfólk sendiráðsins í París sótti hringborð franska utanríkisráðuneytisins sem haldið var í tilefni alþjóðlega baráttudagsins gegn fordómum í garð hinsegin fólks (IDAHOBIT). Aðgerðasinnar og háskólafólk frá Úganda, Úkraínu, Frakklandi, Rússlandi, Ítalíu og Frakklandi ræddu stöðu hinsegin fólks í tengslum við aukinn áróður og falsfréttir í þeirra garð og hvernig stemma mætti best stigu við því.

Þá sagði sendiráðið í París frá vinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í tengslum við efnahagsspá OECD fyrir árið 2025.

Heba Líf Jónsdóttir, viðskiptafulltrúi sendiráðsins í Osló, heimsótti norska sendiráðið í Reykjavík í vikunni.

  

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Tókýó, var staddur í Osaka á dögunum þar sem hann heimsótti tvo skóla og listasafn.

  

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra heimsótti Færeyjar á dögunum í boði Aksels V. Johannesen, lögmanns Færeyja. Þar tók Hannes Heimisson, aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn, vel á móti henni.

  

  

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra Íslands í Washington D.C., tók á móti hópi þar sem heimildarmyndin "The Day Iceland Stood Still" var sýnd en hún fjallar um kvennaverkfallið í október árið 1975.

Vilhjálmur Wiium, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg, tók þátt í fundi með fulltrúum viðskiptaráðs Manitoba, efnahagsþróunarráði Winnipeg og fleiri aðilum á dögunum.

  

Sendiráðið í Berlín tók á móti Loga Má Einarssyni, menningar-, nýköpunar- og háskólaráðherra, á dögunum. Ráðherrann tók þátt í fjölbreyttri dagskrá og fékk góðar móttökur frá Auðuni Atlasyni sendiherra.

  

Auðunn var þá staddur í Prag á dögunum þar sem hann tók þátt í viðburði á grundvelli samstarfs Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Úkraínu. Tékkar héldu fundinn og tóku hinir ýmsu aðilar frá hinu opinbera, atvinnulífinu, menningarlífinu og háskólasamfélaginu þátt.

  

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta