Ráðherra með opna viðtalstíma og heimsóknir víðs vegar um landið á kjörtímabilinu
Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar og háskólaráðherra, mun á kjörtímabilinu reglulega heimsækja sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessu vill ráðherra styrkja beint samtal við íbúa, fyrirtæki, stofnanir og sveitarstjórnarfólk um allt land og um leið tryggja að sjónarmið fólks víðs vegar að fái að heyrast beint inn í stefnumótun ráðuneytisins.
Fyrsta heimsóknin verður á Ísafjörð 21. maí nk. og í haust verður haldið áfram með ferðir í fleiri landshluta. Fundadagskrá næsta vetrar verður auglýst sérstaklega í september.
Í hverri heimsókn verða opnir viðtalstímar þar sem almenningi gefst tækifæri til að ræða við ráðherra um málefni sem heyra undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Þá mun ráðherra einnig heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og funda með kjörnum fulltrúum.
„Það skiptir máli að við sem störfum að stefnumótun og tökum ákvarðanir fyrir allt landið hittum fólkið þar sem það býr og starfar. Við getum ekki ætlast til þess að allir komi til okkar – við þurfum líka að fara til þeirra,“ segir Logi.
Opinn viðtalstími á Ísafirði miðvikudaginn 21. maí 2025
Ráðherra tekur á móti öllum áhugasömum á opnum viðtalstímum milli klukkan 13 og 13:45 í Vestfjarðarstofu við Árnagötu 2-4 á Ísafirði miðvikudaginn 21. maí. Á opnum viðtalstímum eru allir áhugasamir velkomnir í stutt, milliliðalaust spjall þar sem tækifæri gefst til að viðra hugmyndir og koma athugasemdum tengdum málefnum á borði menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra á framfæri.