Hoppa yfir valmynd
16. maí 2025 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tölur 2024 birtar í mælaborði um farsæld barna

Tölfræðigögn fyrir árið 2024 hafa verið birt í mælaborði um farsæld barna. Markmið mælaborðsins er að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna á Íslandi á hverjum tíma, með sérstaka áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir.

Mælaborðið er verkfæri við innleiðingu farsældarlaga og gagnadrifinnar stefnumótunar um hag barna. Það var þróað í umfangsmiklu samráði við önnur ráðuneyti, fræðasamfélagið, hagaðila, sveitarfélög og ekki síst börn.

Mælaborðinu var hleypt af stokkunum í apríl 2024 með tölfræðigögnum fyrir árið 2023. Mælingar í mælaborðinu eru flokkaðar eftir fimm grunnstoðum farsældar barna: Menntun, heilsa og vellíðan, öryggi og vernd, lífsgæði og félagsleg staða, þátttaka og félagsleg tengsl. Grunnstoðirnar ramma inn forsendur þess að börn nái að vaxa og dafna í nútíð og framtíð. Undir hverja grunnstoð falla tölfræðigögn er gefa mynd af stöðu barna á tilteknu sviði og saman lýsa stoðirnar fimm farsæld barna hér á landi með heildstæðum hætti.

Gögnin í mælaborðinu byggja að stórum hluta á mælingum sem koma úr Íslensku Æskulýðsrannsókninni (ÍÆ) sem fer fram í 4.-10. bekk grunnskóla landsins á vorin ár hvert. Mælingar úr ÍÆ er hægt að skoða með tilliti til ýmissa bakgrunnsbreyta barnanna t.d. í hvaða landshluta þau búa og hvort að þau hafi erlendan bakgrunn.

Ný uppfærsla mælaborðsins miðar einnig að því að gera það notendavænna. Nú er m.a. hægt að nálgast leiðbeiningar um notkun mælaborðsins og upplýsingar um lýsigögn undir „Leiðbeiningar“ á forsíðu mælaborðsins. Þá voru gagnainnviðir styrktir með það fyrir augum að flýta birtingu nýrra gagna.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta