Hoppa yfir valmynd
19. maí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Bráðaviðbragð heilbrigðisþjónustu í Öræfasveit í sumar

Bráðaviðbragð heilbrigðisþjónustu í Öræfasveit í sumar - myndHeilbrigðisráðuneytið

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur falið Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) að skipuleggja bráðaviðbragð í Öræfasveit til að auka öryggi íbúa og ferðamanna á svæðinu. Í viðbragðinu felst stöðug viðvera sjúkabíls með reyndum sjúkraflutningamanni sem sinnir bráðaþjónustu í góðu samstarfi við björgunarsveitina Kára í Öræfum. Markmiðið er að tryggja skjót viðbrögð, s.s. ef meta þarf áverka eftir slys, bregðast við bráðaveikindum, veita fyrstu hjálp og undirbúa flutning á sjúkrastofnun ef með þarf.

Þetta er þriðja sumarið sem bráðaviðbragð með þessu fyrirkomulagi er skipulagt í Öræfasveit. Næstu heilsugæslur eru á Kirkjubæjarklaustri í vestri og Höfn í austri. Það er því um langan veg að fara til að sækja heilbrigðisþjónustu en með þessu skipulagi er unnt að bregðast skjótt við bráðatilvikum og tryggja betur öryggi fólks á svæðinu. 

Vel gengið að manna læknastöður á Suðurlandi í sumar

Vel hefur að gengið að manna heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum á Suðurlandi í sumar. Á Höfn verður staðan góð með tvo lækna við störf yfir allt sumarið. Í Rangárþingi er búið að manna stöður með tveimur til þremur læknum alla virka daga og í Laugarási verða tveir læknar í allt sumar. Staðan í Vestmannaeyjum er einnig góð en á heilsugæslunni verða þrír til fjórir lækna yfir hásumarið. „Það hefur verið eitt af okkar lykilmarkmiðum að efla þjónustuna þar sem þörfin er mest, sérstaklega yfir ferðamannatímann þegar álagið er mikið. Gott samstarf við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila til að tryggja skjót viðbrögð þegar á reynir skiptir einnig miklu máli. Við erum ánægð með hve vel hefur tekist að manna lykilsvæði og tryggja þannig öryggi heimamanna og gesta.“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

  • Bráðaviðbragð heilbrigðisþjónustu í Öræfasveit í sumar - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta