Ráðherra afhenti nýjum rektor Háskóla Íslands skipunarbréf
Dr. Silja Bára R. Ómarsdóttir tók á föstudag við skipunarbréfi frá Loga Einarssyni, ráðherra háskólamála. Silja Bára hefur verið skipuð rektor Háskóla Íslands (HÍ) til næstu fimm ára og tekur við embætti 1. júlí nk. Skipan nýs rektors er samkvæmt ákvörðun háskólaráðs HÍ frá 3. apríl sl. um tilnefningu hennar, en hún tekur við starfinu af Jóni Atla Benediktssyni sem gegnt hefur stöðu rektors frá árinu 2015.
Silja Bára, sem starfað hefur sem prófessor í alþjóðasamskiptum við Stjórnmálafræðideild á Félagsvísindasviði háskólans, fékk meirihluta atkvæða eftir aðra umferð rektorskjörs sem fram fór í mars sl. Hún lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá University College í Cork á Írlandi, meistaraprófi í alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Suður-Kaliforníu og BA prófi í sömu grein frá Lewis & Clark háskólanum í Bandaríkjunum. Þá hefur Silja Bára starfað við HÍ frá árinu 2008 og lagt stund á rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála, kyn- og frjósemisréttinda og feminískra alþjóðasamskipta