Evrópskir ráðherrar siglingamála vilja efla samkeppnishæfni í siglingum
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra sat fund evrópskra siglingamálaráðherra í Szczecin í Póllandi 15. maí sl. Á fundinum voru viðstaddir ráðherrar bæði frá ESB- og EES-ríkjum. Ráðherrafundurinn var haldinn samhliða Alþjóðlega siglingaþinginu (e. International Maritime Congress) sem haldið er í Póllandi annað hvert ár.
Á fundi ráðherranna var m.a. rætt um leiðir til að efla samkeppnishæfni Evrópu í siglingum og gera siglingar að eftirsóttum starfsvettvangi fyrir sérfræðinga. Einnig var rætt um það hvernig tryggja megi öryggi aðfangakeðja og herflutninga með siglingum í Evrópu á tímum pólitísks og efnahagslegs óstöðugleika.
Við þetta tækifæri átti Eyjólfur tvíhliða fundi annars vegar með Marina Hadjimanolis, ráðherra siglingamála á Kýpur, og hins vegar með Marianne Sivertsen Næss, ráðherra málefna hafsins og sjávarútvegs í Noregi.
- Nánar um Alþjóðlega siglingaþingið (International Maritime Congress)