Hoppa yfir valmynd
21. maí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Heimsókn dómsmálaráðherra til Europol og Eurojust í Haag

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Michael Schmid forseti Eurojust og Kolbrún Benediktsdóttir. - mynd

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra heimsótti Löggæslusamvinnustofnun (Europol) og Refsivörslusamvinnustofnun (Eurojust) Evrópusambandsins í Haag á dögunum. Markmið ferðarinnar var að efla tengsl Íslands við stofnanirnar sem og að kynnast starfi íslenskra tengifulltrúa þar: Vinnu þeirra, framlagi og áhrifum Íslands. Stefán Sveinsson lögreglumaður er tengslafulltrúi Íslands hjá Europol og Kolbrún Benediktsdóttir er sendisaksóknari hjá Eurojust.

„Alþjóðlegt samstarf er lykillinn að góðum árangri í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við erum að takast á við fjölþjóðlega hópa sem vinna þvert á landamæri. Því er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld rækti þetta samband. Tengslanet Europol er mjög mikilvægt fyrir Ísland og hefur leitt til þess að við höfum getað hafið rannsókn á alvarlegum brotum og ógnunum, sem hafa endað með sakfellingu. Þar má nefna stærstu fíkniefnainnflutningsmál Íslands og brottvísun ISIS-liðans á Akureyri. Þá hafa höfuðpaurar verið sakfelldir, en ekki einungis útsendarar þeirra,“ segir dómsmálaráðherra. „Þessi ríkisstjórn ætlar að styrkja landamæraeftirliti og taka hart á skipulagðri glæpastarfsemi. Við ætlum að leggja meiri þunga á þessi mál en gert hefur verið. Í haust legg ég fram fleiri frumvörp til að efla þessa þætti, m.a. til að stæyrkja embætti lögreglunnar á Suðurnesjum.“
Dómsmálaráðherra fundaði með Cathrine De Bolle, forstjóra Europol og Michael Schmid, forseta Eurojust. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er fyrsti íslenski ráðherrann til að heimsækja þessar alþjóðlegu stofnanir, svo vitað sé.


Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Cathrine De Bolle forstjóri Europol.

„Mér þótti afar mikilvægt að þakka þeim fyrir gott samstarf. Við getum ekki einungis falast eftir upplýsingum og gögnum frá öðrum ríkjum, heldur þurfum við líka að leggja okkar af mörkum. Þetta er samvinna og markmið okkar allra er það sama; að vinna bug á hættulegum glæpahópum og efla öryggi og varnir ríkja. Eurojust er saksóknarahliðin á samstarfinu og Kolbrún Benediktsdóttir er fyrsti fulltrúi okkar Íslendinga þar. Hún tók til starfa í fyrra og hefur nú þegar komið að afar mikilvægum rannsóknum.“





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta