Alþjóðlegur farsóttarsáttmáli samþykktur á þingi WHO
Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa samþykkt einróma á þingi sínu í Genf, nýjan farsóttarsáttmála. „Sáttmálinn er sigur fyrir lýðheilsu, vísindi og fjölþjóðlega samvinnu og tryggir að við getum í sameiningu varið heimsbyggðina betur gegn vá af völdum farsótta í framtíðinni“ segir Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO.
COVID-19 heimsfaraldurinn afhjúpaði alvarlega veikleika í alþjóðlegri samhæfingu, viðbúnaði og jafnræði í aðgengi að mikilvægum aðföngum. Skortur á aðgengi að bóluefnum og hlífðarbúnaði, takmarkað traust milli ríkja og skortur á samhæfðu alþjóðlegu samstarfi olli verulegu tjóni. Aðildarríki WHO ákváðu því á þingi stofnunarinnar í desember 2021 að hefja undirbúning að gerð alþjóðlegs farsóttarsáttmála með aðkomu aðildarríkjanna. Eftir þriggja ára samstarf og samningaviðræður þjóðanna var unnt að leggja sáttmálann fram til samþykktar á yfirstandandi þingi WHO þar sem hann var samþykktur einróma. Þjóðir sem studdu samninginn voru 124 en 11 þjóðir sátu hjá. Engin þjóð var á móti.
Markmið farsóttarsáttmálans
Markmið sáttmálans er að styrkja viðbúnað og viðbrögð gegn farsóttum, þar sem einnig er horft til þess að sporna gegn því að faraldrar smitsjúkdóma í framtíðinni komi í veg fyrir frelsi fólks til að ferðast, vinna, leita sér menntunar. Umfram allt stuðlar hann að því að fólk geti lifað heilbrigðu lífi án sjúkdóma sem hægt er að forðast eða fyrirbyggja. Samningurinn er umfangsmikill og nær yfir öll stig viðbúnaðar og viðbragða gegn faröldrum.
Fullveldi ríkja tryggt
Í samningnum er skýrt kveðið á um að hann skerði ekki fullveldi aðildarríkjanna. Þar kemur meðal annars fram að WHO fái ekki vald til að hlutast til um löggjöf, stefnumörkun eða aðgerðir einstakra ríkja s.s. varðandi ferðatakmarkanir, bólusetningar eða aðrar íþyngjandi ráðstafanir.
Stefnt að undirritun samningsins að ári
Gert er ráð fyrir að aðildarríki WHO undirriti farsóttarsáttmálann formlega á Alþjóðaheilbrigðisþinginu að ári, þegar vinnu við mikilvægan viðauka samningsins verður lokið. Viðaukinn fjallar um kerfi varðandi aðgang og nýtingu á gögnum um sjúkdómsvaldandi smitefni sem valdið geta heimsfaraldri.